Húsnæðisstofnun ríkisins

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 18:06:42 (7765)

     Jón Kristjánsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því að klukkan er orðin 6 og komið fram yfir þann tíma sem var áætlað hér að þingfundur yrði og mér er nú spurn, hvers vegna það er verið að keyra hér áfram þetta fundahald? Við óbreyttir þingmenn höfum ekkert fengið að vita um hvað ætlunin er að afgreiða hér áður en þingi lýkur í vor. Það var talað um að leggja fram frv. um sjávarútvegsmál. Það hafa verið einhverjar lausafregnir af því hjá ríkisstjórninni að það ætti að ræða þau mál í dag. Forgangslisti hefur náttúrlega enginn komið fram af málum hvað ríkisstjórnin ætlar sér. Það hefur frést að það sé einhver forgangslisti hér á sveimi, þar sé m.a. ákvæði um að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög. Ég held að það sé inni á þessum lista. Ég held að það þurfi dálítinn tíma til þess og það sé ekki ástæða til þess að vera að strekkja hér áfram í kvöld ef þing á að standa meira og minna í allt sumar ef þessi sjávarútvegsmál koma fram. Mér er spurn: Hvenær fáum við að vita eitthvað um það hvenær þingi lýkur? Á því að ljúka núna 8. maí eða er ætlunin að halda áfram þingi fram á vorið og fram á sumarið? Ef svo er, þá held ég að það sé nú ekki ástæða til að vera að strekkja hér áfram þennan klukkutíma. En ég heyri að forseti hyggst ljúka þingfundi fyrir kl. 7 eða um sjöleytið þannig að ég þarf ekki að spyrja hann að því hvort það eigi að halda áfram fram yfir matartímann eins og oft hefur verið gert. En ég tel enga ástæðu til þess að halda áfram vegna þess að hér hafa menn ekkert mætt til þings í dag í stórhópum. Hér hafa verið örfáir menn í allan dag, örfáir stjórnarandstæðingar sem hafa haldið uppi þinghaldi í dag og við höfum ekki fengið neitt tækifæri til

að skiptast á skoðunum við stjórnarliðið í þessu húsnæðismáli sem við vitum þó að hefur miklar efasemdir um þetta mál.