Húsnæðisstofnun ríkisins

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 18:18:07 (7772)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég geri nú ekki mikinn ágreining um það hvort þinghald standi til 18 eða 18.45 eða 19, það er í sjálfu sér ekki meginatriði úr því sem komið er. En ég vil benda forseta á það að á dagskrá þessa fundar eru 29 mál og býsna mörg af þeim hafa ekki komist að á þessum þingfundi og þar á meðal einar fimm atkvæðagreiðslur sem ekki hefur tekist að . . .   ( Forseti: Það lá fyrir, hv. þm., að þeim atkvæðagreiðslum væri frestað. Það hefur legið fyrir. Það var gert strax í upphafi fundar kl. 1.30.) Ég heyrði það, virðulegi forseti. Ég vil a.m.k. láta það koma fram af minni hálfu að mér er ekkert að vanbúnaði að þessar atkvæðagreiðslur fari fram á þessum þingfundi. ( Forseti: Það var óskað eftir að þeim yrði frestað og þeim er frestað.) Þannig að það er ýmislegt sem veldur því að mál ganga kannski ekki fram eins og ætlað er eins og fram kom hjá hæstv. forseta að óskað hefur verið eftir frestun á ákveðnum atkvæðagreiðslum. Það hefur ekki verið upplýst hver óskað eftir þeirri frestun en ég þykist vita að það sé komið frá stjórnarliðinu og geri í sjálfu sér engar athugasemdir við það, en það er þá rétt að mönnum sé það ljóst hverjir það eru sem treysta sér ekki til að takast á við þetta verkefni.
    Mér er ekkert að vanbúnaði, virðulegi forseti, að halda áfram ræðu minni um stjfrv. um Húsnæðisstofnun ríkisins. Hins vegar er nú nokkurt mál eftir í þeirri umræðu og ég er nú ekki viss um að mér takist að ljúka þeirri ræðu á þeim tíma sem nefndur hefur verið, svona hálftími. Það getur svo sem ráðist hvort ég fresta þá því sem eftir stendur og tek þá til máls á nýjan leik eða hvort ræðunni verður frestað þá. Það er svo sem ekki meginatriði málsins, virðulegi forseti, en mér er í sjálfu sér ekkert að vanbúnaði að halda áfram, en mér þótti nauðsynlegt að fá það fram að þinghald stæði ekki fram yfir kl. 19. Ég tel að það sé nauðsynlegt að þingmenn geti nokkuð treyst á þær upplýsingar sem þeir fá frá þingflokksformönnum eins og við fengum á okkar þingflokksformanni. Ég neita því ekki að mér þykir það nokkuð miður að svo skuli þingstörf ganga fram að menn geti verið annars staðar heldur en hér að sinna sínum þingskyldum.