Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

168. fundur
Mánudaginn 03. maí 1993, kl. 21:26:38 (7779)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Tveggja ára afmælisdagur ríkisstjórnarinnar heilsaði okkur á föstudaginn var á viðeignadi hátt, með hryssingskulda, nepju, byljum og hálku. Ástandið var í takt við tveggja ára setu stjórnarinnar, ringulreið, árekstrar, eignatjón og jafnvel eitthvað verra. Og rétt eins og fannfergi að vori kemur bæði bílstjóri og blómum í opna skjöldu, þá voru kjósendur stjórnarflokkanna ekki að kjósa þessi ósköp yfir sig þegar þeir kusu hana fyrir tveimur árum. Ríkisstjórnin kom aftan að fólki og sýndi meiri harðneskju en nokkurn gat órað fyrir. Skoðanakannanir sýna að menn eru ekki reiðubúnir til að taka sömu áhættuna aftur. Andstaðan við ríkisstjórnina er mikil. Hún hefur mælst um 70% það sem af er þessu ári.
    Á sl. tveimur árum hafa orðið gífurleg umskipti á lífskjörum hér á landi. Ég ætla að staldra við það hvernig þessi umskipti hafa snert konur því staða þeirra er veikari en flestra annarra þjóðfélagsþegna. Atvinnuleysið, sem ríkisstjórnin ber fulla ábyrgð á, kemur harðast niður á konum. Það er um 6% hjá konum en um 5% hjá körlum. Raunar hafa verið bornar brigður á að þessar tölur standist vegna þess hvernig atvinnuleysi er mælt og talan er að sumra mati orðin tveggja stafa. Á einstökum svæðum er langtímaatvinnuleysi kvenna mun meira. Suðurnes skera sig úr. Þar er viðvarandi 10% atvinnuleysi meðal kvenna og ríkisstjórnin gerir mest lítið. Ástandið er einnig mjög alvarlegt á Norðurl. e. þar sem 7,5% kvenna ganga

atvinnulaus. Dulið atvinnuleysi hefur alltaf verið mun meira meðal kvenna en karla. Á samdráttartímum er mjög sterk tilhneiging til að ýta konum út af vinnumarkaðnum og er þá höfðað til ábyrgðarkenndar þeirra gagnvart börnum sínum og heimili. Mér finnst það alveg furðulegt að ekki skuli vera talin ástæða til þess að höfða til ábyrgðarkenndar karla, t.d. með því að taka upp styttri og sveigjanlegri vinnutíma svo að báðir foreldrar geti sinnt skyldum sínum því ekki gerir samfélagið það með stuttan og sundurslitinn skóladag og skort á dagvistun.
    Aldrei er það skýrara en á tímum umróts og samdráttar hve sterk öfl reyna að halda konum niðri. Víða um heim er talað um að bakslag hafi komið í réttindabaráttu kvenna. Vestan hafs hafa komið út fjölmargar bækur um þennan afturkipp. Hér á landi hóf tímaritið Vera þessa umræðu í nýjasta tölublaði ritsins. Beinharðar staðreyndir eru t.d. þessar:
    Launabilið milli karla og kvenna hefur ekki minnkað síðustu tvo til þrjá áratugina, hvorki hér á landi né í Bandaríkjunum, og hugtakið ,,ósýnilegt þak`` er að verða vel þekkt um það undarlega fyrirbæri að karlmenn raðast í nánast allar toppstöður. Lítið bara á ráðherrabekkinn. Hann er að vísu tómur núna en þar sitja venjulega býsna margir karlar og raunar er það konan ein, þessi eina meðal tíu, sem situr hér nú. Lítið bara á forkólfa viðskiptalífsins. Lítið bara á prófessorana í háskólanum. Þetta eru ekki konur, þetta eru karlar.
    Í stað þess að allt þjóðfélagið reyni að leiðrétta þennan augljósa mismun hefur það viljað brenna við að skuldinni sé skellt á konur og reynt að ala á sektarkennd þeirra. Konur taka óréttlæti ekki með þögninni. Það sýnir m.a. samstillt barátta þeirra fyrir enduropnun Fæðingarheimilisins. Það sýnir samstillt barátta ýmissa kvennastétta fyrir réttindum sínum, barátta sem hefur mætt alveg ótrúlegri andspyrnu.
    Í kjölfar umskiptanna sem orðið hafa í Austur-Evrópu hefur einnig ýmislegt lærdómsríkt komið í ljós. Konum hefur fækkað í opinberum stöðum og á þjóðþingum og skilaboðin til þeirra eru: Þið verðið að bíða á meðan við erum að ganga í gegnum umbreytinguna. Þetta hafa konur heyrt á ýmsum tímum. En nú munu þær varla sætta sig við slíkt lengur. Um allan heim mótmæla konur kúgun og misrétti af öllu tagi. Gleggst kemur það fram í hörðum mótmælum gegn grimmdarverkum gagnvart múslimakonum í Bosníu. Samstaða kvenna er mikil þegar á reynir og það er farið að reyna býsna mikið á mjög víða, einnig hér á landi.
    Og hvernig er svo ástandið í Vestur-Evrópu? Þar er það ekki síst unga fólkið og konurnar sem hafa orðið fyrir barðinu á atvinnuleysinu og félagsleg réttindi, svo sem barnsburðarleyfi, eru víðast hvar mun rýrari í Evrópubandalaginu en hér á landi. Spurningin er: Hvernig mun ganga að sækja og verja aukinn rétt í þeim málum ef við verðum hluti af Evrópsku efnahagssvæði þar sem aðlögun er orð dagsins? Aðlögun að hverju?
    Við heyrðum í fyrsta sinn í vetur ýjað að því að réttast væri að skerða fæðingarorlofið. Var það kannski aðlögun? Þessum áformum var mætt með harðri andstöðu, kvenna fyrst og fremst, ekki karla. Og varla er það tilviljun að þessi ríkisstjórn, sem e.t.v. keyrir okkur inn á Evrópska efnahagssvæðið án þess að leyfa þjóðinni að tjá sig um málið, hefur gert aðstæður kvenna verri en þær hafa verið um langa hríð. Er það kannski aðlögun? Það er þessi stjórn sem hefur horft aðgerðalaus á atvinnuleysið vaxa. Vænleg atvinnugrein eins og ferðaþjónusta, sem skapar konum mörg störf, er skattlögð. Það er þessi stjórn sem skerti námslánin svo fjöldi kvenna hefur orðið að hverfa úr námi. Það er þessi stjórn sem leggur álögur á þá sem rýrust hafa kjörin en skýtur sér undan því að koma á fjármagnstekjuskatti. Hvernig má það vera að sá sem kaupir lyf og læknisþjónustu má punga út þúsundum króna, jafnvel tugþúsundum, en sá sem hefur tekjur af háum bankainnstæðum þarf ekkert að greiða til samfélagsins af þeim arði?
    Mönnum verður tíðrætt um nýtni í atvinnuleysinu. Atvinnuleysisbætur eru smánarlegar og ekki að furða að fólk reyni að nýta bæði föt og matvöru til hins ýtrasta. En hvernig skyldu stjórnvöld svo standa sig í þessum slag? Það er alveg eins og þau hafi misskilið þetta hugtak, nýtni. Ekki vantar það að ríkisstjórninni verði tíðrætt um hagræðingu og sparnað. Þannig er barnafólki og ellilífeyrisþegum ætlað að nýta sínar fáu krónur til að greiða svimandi fjárhæðir fyrir nauðsynleg lyf. Í sárabætur á fólkið að fá aukna kostnaðarvitund með kveðju frá ríkisstjórninni. Stofnunum og ríkisfyrirtækjum er gert að nýta hverja matarholu til að láta nánasarlegar fjárveitingar duga og gera það helst með því að taka gjald af ríkum sem snauðum fyrir þjónustu sína. En hvernig stendur svo ríkisstjórnin sig í nýtninni? Jú, við vitum vel hvernig einstakir ráðherrar nýta sér út í ystu æsar vald og aðstöðu. Þeir nýta aðstöðu sína til að hygla vinum sínum, keyra í gegn fráleitustu ákvarðanir. Þeir nýta aðstöðu sína í eigin þágu og til að nýta og endurnýta menn sem hvergi hefur verið hægt að koma fyrir innan kerfisins svo skaðlaust sé. Þannig mætti lengi telja. Það er komið býsna mikið kusk á hvítflibbann. Verst er þó nýtni ríkisstjórnarinnar sem heildar. Hún ber þess glögglega vitni að hún hefur ekki hugmynd um hvað raunveruleg nýtni er. Það er nýtni að sauma buxur á barnið sitt upp úr buxum föður þess og nota þá efni sem heillegt er og lítið slitið. En það er léleg nýtni að setja blessað barnið í buxurnar eins og þær koma af pabbanum, allt of stórar, slitnar og útjaskaðar og vona svo bara að barnið hrasi ekki í stórum skálmunum. Þannig er nýtni ríkisstjórnarinnar í hnotskurn. Hún hirðir upp aflóga frjálshyggjupólitík frá andlegum foreldrum sínum, Reagan og Thatcher, pólitík sem er búið að henda í heimalöndum þeirra. Við eigum ekki að sætta okkur við aflóga pólitík sem gagnast hvorki okkur né öðrum.
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Aldrei er það nauðsynlegra en á samdráttartímum að gæta réttlætis í hvívetna. Það verður ekki gert með því að afhenda sérlegum vinum ráðherranna ríkisfyrirtæki, hvorki í nafni einkavæðingar né annars. Það verður ekki gert með því að tryggja einstaklingum yfirráðarétt yfir sameiginlegri auðlind okkar, fiskimiðunum. Víða um land eru fiskvinnslukonur nú atvinnulausar vegna þess að hagsmunir þeirra og hagsmunir kvótaeigenda fara ekki saman. Þetta á ekki að líða.
    Hverra hagsmuna gætir þessi ríkisstjórn? Ekki hagsmuna almennings, enda er aldrei átt við hann þegar notað er orðið ,,hagsmunaaðilar``. Við tryggjum ekki réttlæti með mismunun. Við tryggjum ekki réttlæti með því að þyngja álögur á láglaunafólk en halda hlífðarhendi fyrir stóreignamönnum. Við tryggjum ekki réttlæti með þessari ríkisstjórn. Við eigum betra skilið. --- Góða nótt.