Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

168. fundur
Mánudaginn 03. maí 1993, kl. 21:42:51 (7781)

     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Þeir breytingatímar sem við nú lifum virðast æðioft vera slíkur ólgusjór að við getum ekki sagt fyrir um á hvorn borðstokkinn hann gefur. Aflatregða, aflaskerðing, samdráttur í landbúnaði, samdráttur á viðskiptamörkuðum, verðlækkun á fiskmörkuðum, uppskera rangra fjárfestinga og halli á ríkissjóði. Allt eru þetta holskeflur sem riðið hafa yfir að undanförnu og hann spáir áframhaldandi óveðri. Þess vegna höfum við orðið að rifa seglin. Í góðærinu láðist okkur að aðlaga okkur þeirri þróun sem átti sér stað í kringum okkur og viðurkenna þá staðreynd að við erum hlekkur í heimskeðjunni. Við getum ekki þróað atvinnulíf okkar án þess að taka tillit til þróunar meðal annarra þjóða. Því má segja að skuldadagarnir séu hluti af þeim ólgusjó sem við höfum siglt.
    Þegar óveðursblikuna bar við loft svifum við enn fyrir þöndum seglum lítt viðbúin áföllum. Fyrir sex árum hófst svo tímabil stöðnunar í atvinnulífinu. Vonir um skjótan bata brustu þegar samdráttarskeiðið reið yfir. Það er því ekki að furða þó að það hrikti í rá og reiða. Við vorum þó ekki með öllu óviðbúin ágjöfum. Lífskjör okkar eru enn góð í samanburði við aðrar þjóðir. Efnahagsgerð okkar er tiltölulega sterk. Við höfum náð góðum árangri í viðureigninni við verðbólguna. Við höfum einnig gert okkur grein fyrir mikilvægi alþjóðasamskipta, m.a. með lögum um Evrópskt efnahagssvæði og nú síðast með þverpólitískri þál. um tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið. Og síðast en ekki síst er sá farmur sem dýrmætastur er: upplýst, vel menntuð og heilbrigð þjóð.
    Slæm veðurspá hindrar ekki að við náum landi. Með góðri áhöfn má leyfa sér bjartsýni og þá áhöfn höfum við. Enn er tími til að leita skynsamlegri leiða til að sneiða hjá dýpri hluta lægðarinnar og ná þannig bæði landi og gjöfulli miðum. Góð áhöfn veit að árangur næst ekki nema með þrautseigju og vandlega íhuguðum úrræðum. Skynsamleg hagstjórn og baráttuvilji geta ráðið lendingunni. En til þess að okkur auðnist þetta verðum við að geta tryggt stöðugleika í verðlagsmálum og jafnvægi í þjóðarbúskapnum þannig að unnt sé að reiða sig á nánasta umhverfi. Við megum ekki láta það henda okkur aftur að lenda í óvissu innlendrar verðbólgu. Við verðum að skapa okkur efnahagslegar forsendur og lækkun vaxta. Það er grundvöllur fyrir afkomu fyrirtækjanna í landinu og það auðveldar jafnframt skuldugum heimilum að lækka skuldabyrðina.
    Við verðum að bæta menntakerfið. Ég trúi því að hugvitið verði okkar sterkasta vopn til að sigrast á erfiðleikum framtíðarinnar og tryggja okkur samkeppnishæfni við aðrar þjóðir. En í núverandi menntakerfi eru komnir fúabrestir sem þarf að bæta strax. Við verðum að móta markvissa atvinnustefnu þar sem forsjálni verður í fyrirrúmi. Við höfum ekki lengur efni á því að velja verkefni að vild, hvort heldur er til sjós eða til lands. Við þurfum að íhuga vandlega fjárfestingar okkar í framtíðinni og meta arðsemi atvinnutækifæranna, ekki eingöngu í nútíð heldur miklu fremur til framtíðar.
    Við verðum líka að skrúfa fyrir halla ríkissjóðs án þess að skerða velferð okkar, eðlilega þróun hennar og valfrelsi. Við verðum að stemma stigu við atvinnuleysi með úrlausnum sem skila okkur hæfara fólki. Og við alþingismenn verðum öll að sýna ábyrga forustu. Sú forusta þarf að hafa yfirsýn og ekki síst framtíðarsýn til að takast á við erfiðleikana og sameina kraftana sem leiðandi afl. Forustan þarf að vera tilbúin til að taka á sig boðaföllin. Forustan verður einnig að finna það leiði sem gefur áhöfninni tækifæri til að taka á árunum þótt þungar verði. Takist okkur að fá alla til að róa samtaka og í sömu átt, náum við fyrr öruggari höfn. Með þessum ásetningi óska ég ykkur öllum bæði nær og fjær þeirrar gæfu að ná góðum árangri í starfi fyrir land og þjóð. --- Góða nótt.