Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

168. fundur
Mánudaginn 03. maí 1993, kl. 22:29:33 (7787)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Góðir tilheyrendur. Það hefur á margan hátt verið merkilegt að hlusta á þessa umræðu hér í kvöld. Forsrh. er sá sem við höfum hlustað mest á, hann hefur komið hér og sagt nánast ekki neitt nema hann hefur haldið áfram að tala um fortíðina. Félmrh. hefur jafnframt komið hér upp og talað um eyðslu í fyrri ríkisstjórnum sem hún hefur setið í og sagt að þar hafi verið eytt og sóað en jafnframt spurt viðskrh. í eigin ríkisstjórn um það hvort ekki sé hægt að spara í Seðlabankanum. Vonandi tekst ráðherrum Alþfl. að spara í Seðlabankanum áður en kjörtímabilið er á enda. En er það nú ekki dálítið undarlegt að ráðherra félagsmála skuli vera að spyrja samstarfsráðherra sinn slíkra spurninga? Sýnir það ekki ákveðið ráðleysi ríkisstjórnarinnar að menn skuli leyfa sér að koma með slík mál hér í kvöld?
    Það deilir enginn við núv. ríkisstjórn um það að við búum við erfitt efnahagsástand. Það hefur enginn gert hér í kvöld. Það deilir enginn við núv. ríkisstjórn um það að við höfum orðið fyrir kjaraskerðingu sem bitnar á okkur öllum. Um þetta eru allir sammála. En aðalatriðið er það til hvers við ætlumst af núv. ríkisstjórn. Við ætlumst ekki til þess af þeim að þeir komi hér fyrst og fremst til að tala um fortíðina heldur að þeir tali um framtíðina. Þeir tali um það hvernig þessum byrðum verður best dreift á okkur og hvernig við nýtum best sóknartækifærin. En það hafa þeir ekki gert. Það vekur reyndar athygli að nú þegar íslenskt atvinnulíf er að tapa 8 milljörðum kr. þá kemur enginn atvinnumálaráðherra ríkisstjórnarinnar í þessa umræðu. Það eina sem stendur upp úr er að núv. utanrrh. er svona að hugsa um að sameina öll þessi ráðuneyti í eitt. Það er e.t.v. þess vegna sem enginn getur talað fyrir atvinnumálin í kvöld. Það er að vísu ekki í fyrsta skipti sem núv. hæstv. utanrrh. reynir að beina athyglinni frá aðalatriðum.
    Við spyrjum um viðbrögð við aðsteðjandi vanda. Við höfum orðið vör við hver þessi viðbrögð eru. Við höfum orðið vör við þau í skattamálum þar sem ríkisstjórnin hefur fyrst og fremst hækkað skatta á almennar tekjur en í reynd lækkað skatta á þeim sem mest mega sín. Um þetta verður aldrei samstaða í okkar samfélagi. Og það verður síst af öllu samstaða um það vegna þess að Sjálfstfl. hefur á undanförnum árum skipti eftir skipti lofað skattalækkunum í okkar þjóðfélagi. Í stað þess að efna þau hafa þeir hækkað skatta stórkostlega. Við spyrjum um það hvernig á að skipta byrðunum í okkar atvinnuvegum? Það voru flestir sammála um það í okkar samfélagi þegar þorskaflinn brást að við yrðum að nota tækifærið og milda áfallið með því að úthluta aflaheimildum Hagræðingarsjóðs. Hæstv. forsrh. lofaði því að þetta skyldi gert með peningum en ekki með afla, hvernig í ósköpunum sem átti að gera það. Enn hefur þetta ekki verið efnt. Og við hljótum að spyrja hvernig á þessu stendur. Við hljótum að spyrja um það af hverju sóknarfærin í íslensku atvinnulífi eru ekki notuð. Þar eru að sjálfsögðu sóknarfærin í íslenskum sjávarútvegi langmest.
    Hæstv. forsrh. sagði hér áðan að ríkisstjórnin hefði vaxandi áhyggjur af sjávarútveginum. Það var allt og sumt sem hann sagði um þann málaflokk. Það var allt og sumt sem hann sagði um 9% halla sjávarútvegsins í ljósi þeirrar staðreyndar að það getur engin sókn orðið í íslensku atvinnulífi nema þessi atvinnugrein sé rekin með hagnaði. Og nú er það tilkynnt í dag að ríkisstjórnarflokkarnir geti ekki komið sér saman um hina svokölluðu sjávarútvegsstefnu. Það var ekki nóg að tala um fiskveiðistefnu þegar ríkisstjórnin var mynduð, nei, það skyldi heita sjávarútvegsstefna vegna þess að það ætti að mynda miklu víðtækari stefnu í þessum málum. En nú stendur upp að þeir ætla sér að búa við þá fiskveiðistefnu sem áður var komið á án breytinga. En yfir mönnum vofir að settur verði á auðlindaskattur með haustinu og það er allt og sumt sem sjávarútvegurinn á að fá frá þessari ríkisstjórn.
    Við höfum heldur ekki notað sóknartækifærin í ferðaþjónustu. Í stað þess að lofa ferðaþjónustunni að njóta sín hefur nú verið ákveðið að leggja sérstakan skatt á hana.
    Landsmönnum líkar þetta heldur illa sem eðlilegt er og það kemur fram í skoðanakönnunum. Hvernig bregst þá núv. forsrh. við? Hann segir í viðtali við Ríkisútvarpið að þetta sé allt vegna þess að menn séu með dylgjur, rógburð og söguburð. Það er ástæðan fyrir því að núv. ríkisstjórn er ekki vinsælli að þjóðfélagið er allt fullt af rógburði og söguburði. Hvernig ætlar þessi ríkisstjórn að ná áttum? Það nægir ekki að tala við hana hér á Alþingi, það nægir ekki að tala við hana af aðilum vinnumarkaðarins, það nægir ekki að fólkið geti sagt álit sitt á henni í skoðanakönnunum, það er alveg sama hvað á gengur, þeir segja: Þetta er allt saman misskilningur og þetta mun lagast með réttum upplýsingum.
    Forsendur bata í okkar samfélagi eru þær að í fyrsta lagi náist samningar á vinnumarkaði. Í öðru lagi að hagnaður verði að veruleika í sjávarúvegi. Það er líka forsenda að almenn skilyrði útflutningsiðnaðar og ferðaþjónustu verði viðunandi, að vaxtalækkun verði að veruleika og bankarnir verði ekki aðeins hvattir til þess eins og hæstv. forsrh. gerði héðan úr ræðustól, og vonandi hefur hann hvatt þá til þess á öðrum vettvangi líka, að ríkisrekstur verði heilbrigður en þar er halli vaxandi á ný og að það eigi sér stað samvinna ólíkra afla í samfélaginu. Því miður virðist ekkert af þessu ætla að verða að veruleika.
    Atvinnuleysisvofan gæti komist aftur á kreik, sagði hæstv. forsrh. Auðvitað er hún á kreiki, hæstv. forsrh. Og það er ekki nóg að bera saman kjaraskerðingu á fyrsta tímabili eða fyrsta ári fyrri ríkisstjórnar og nú á fyrsta ári þessarar ríkisstjórnar, það er til lítils ef kjaraskerðingin byggist á því að allt atvinnulífið muni síðan fara á hausinn. Auðvitað var kjaraskerðingin meiri í upphafi síðustu ríkisstjórnar vegna þess að við sáum hver hættan var í atvinnulífinu og það er frumskilyrði fyrir ríkisstjórn sem ætlar að ná sátt í þessu samfélagi að hún skilji þarfir atvinnulífsins og geri sér grein fyrir því að það verður ekki hægt að byggja hér á Íslandi nema með góðri afkomu atvinnulífsins. Og nú þegar það blasir við að atvinnulífið stendur að miklu leyti frammi fyrir gjaldþroti, þá er vonandi að ríkisstjórnin átti sig. Með þeim eina hætti er hægt að koma í veg fyrir verulegt atvinnuleysi hér á landi.