Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 13:34:56 (7792)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er komið til atkvæða frv. sem var unnið í hv. menntmn. fyrr í vetur. Þá hafði ég skrifað undir nál. með fyrirvara og byggðist sá fyrirvari einkanlega á því að gildistökuákvæði frv. var tengt EES-samningnum sem þá var óljóst um hvernig yrði afgreiddur hér á hv. Alþingi. Nú liggur fyrir vilji Alþingis í þeim efnum og með tilliti til þess sé ég ekki betur en að þetta frv. sé gott mál og það byggist á því að við Íslendingar getum gert ákveðnar kröfur. Þetta er ekki um starfsleyfi heldur viðurkenningu á menntun, gagnkvæma viðurkenningu á menntun. Við getum sett fram kröfur bæði um próf og vinnuaðlögun eða aukið nám sem ég tel vera af hinu góða þannig að eins og mál standa nú þá mun ég styðja þetta frv.