Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 14:28:12 (7802)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. 3. þm. Vestf. flutti afar fróðlega ræðu og setti eiginlega á kennslustund fyrir okkur þingmenn, einkum stjórnarandstæðinga, hvernig við ættum að fjalla um þetta mál og svo náttúrlega í öðru lagi hvað í því fælist. Hann taldi að við hefðum misskilið þetta allt saman meira og minna og þó sérstaklega þennan stjórnsýsluþátt sem hv. þm. gerði síðan að umtalsefni.
    Mér virtist ræðan ganga aðallega út á það að fráleitt væri að tala um að Húsnæðisstofnun yrði gerð ósjálfstæð eða síður mikilvæg eftir breytinguna. Hv. þm. vitnaði í 4. gr. frv. því til rökstuðnings þar sem talin væru upp mörg hin merkustu verkefni sem húsnæðismálastjórn ætti að sinna eftir sem áður.
    Ég verð að benda hv. þm. á það að á undan 4. gr. kemur 1. gr. og reyndar líka 2. og 3. gr., þannig er þessu upp raðað samanber orðanna hljóðan. Í 1. gr. eru lagðar til grundvallarbreytingar á stjórnskipulegri stöðu húsnæðismálastjórnar og stofnunar, það er ekkert hægt að horfa fram hjá því. Vissulega eru síðan talin upp ákveðin verkefni sem húsnæðismálastjórn hafi í 4. gr. en hver og einn maður sem les þetta venjulega og byrjar fremst og les það aftur úr hlýtur auðvitað að fara fyrst yfir það hverju er breytt í 1., 2. og 3. gr. Í 1. gr. er orðið ,,sjálfstætt`` fellt út, sett inn að Húsnæðisstofnun skuli aðeins vera ráðgefandi og fara með þau verkefni sem ráðherra feli henni. Í 2. gr. er ráðherra falið vald til að skipa málefnum stofnunarinnar skipulagslega séð með reglugerð og í 3. gr. er ráðherra veitt vald til þess að skipta um formann og varaformann stjórnar þegar stjórnarskipti verða á miðju kjörtímabili. Allt gengur þetta út á það að draga úr sjálfstæði stofnunarinnar og það eru grundvallarbreytingar á stöðu hennar. Menn geta út af fyrir sig deilt um stærðargráðuna, hæstv. forseti, en um hitt þýðir ekki að deila í hverja átt breytingin er. Stefnan er alveg skýr og hún er að draga úr sjálfstæði og valdi Húsnæðisstofnunar.