Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 14:41:23 (7808)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Afstaða mín er óbreytt frá því sem var í fyrra. Ég studdi það að hagsmunasamtök ættu aðild að stjórn Framkvæmdasjóðs fatlaðra og ég styð að hagsmunasamtök eigi aðild að Húsnæðisstofnun ríkisins. Hv. 3. þm. Vestf. er hins vegar í mikilli beyglu með að útskýra það fyrir þingi og þjóð hvers vegna hann samþykkti í fyrra að hagsmunasamtökin ættu að eiga fullan og gildan rétt til að gera tillögu að ráðstöfun fjár úr Framkvæmdasjóði fatlaðra, og af hverju þessi hagsmunasamtök eigi ekki að hafa rétt til þess núna. Það verða að koma fram einhver rök fyrir því og rökin um það að Alþingi eigi að kjósa í sjóðstjórnina eru út af fyrir sig góð og gild. En til þess að það sé samræmi í málflutningi, þá verður hv. 3. þm. Vestf. að útskýra sína fyrri afstöðu betur því hann samþykkti í fyrra að fulltrúi Alþingis tæki sæti í stjórn Framkvæmdasjóðs fatlaðra þegar verið væri að ræða úthlutun úr sjóðnum. Það er ekki Alþingi sem kýs þann fulltrúa heldur fjárln. þannig að kominn er tilnefningaraðili, ekki bara frá hagsmunasamtökum heldur enn einum hagsmunasamtökum, getum við kalla það, fjárln. Alþingis. Þetta fyrirkomulag samþykkir hv. 3. þm. Vestf. í fyrra og segir svo nú: Það er eðlilegast að Alþingi kjósi beint alla þá sem málinu eiga að ráða.
    En svo ég ljúki þessu, virðulegi forseti, með því að botna söguna um Framkvæmdasjóð fatlaðra sem fluttur var á forræði félmrh. eins og verið er að leggja til með húsnæðismálastjórn. Og hver er reynslan af því eftir fyrstu tillögugerð að úthlutun um sjóðinn? Þegar liðinn var rúmur mánuður frá því að sjóðstjórn gerði sínar tillögur hafði félmrh. ekki afgreitt það. Er þetta það sem koma skal að félmrh. á að hafa á hnjánum á sér hvernig útdeila eigi þremur milljörðum kr. úr húsnæðismálastjórn árlega?