Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 14:43:52 (7809)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að biðja hv. 5. þm. Vestf. forláts á því að mig misminnti um afstöðu hans varðandi málefni fatlaðra í fyrra. Það verður hins vegar að virða mér til vorkunnar að hv. þm. flutti að ég held 80 eða 90 brtt. við frv. á þeim tíma. Þær brtt. voru að vísu allar felldar en það breytti engu um það að bæði hann og allt Alþb. eins og það lagði sig lét sig samt sem áður hafa það að styðja sem betur fer frv. til laga um málefni fatlaðra. Ég óska þeim mjög til hamingju með það. En það er ekki skrýtið þó að ég hafi aðeins ruglast í þessum málum varðandi afstöðu hv. þm. og flokks hans í þessum efnum svo sérkennileg sem hún var á þeim tíma.
    Það er hins vegar ekki aðalatriði þess máls hvernig afstaða manna var til þess málaflokks þegar við erum núna að ræða málefni húsnæðismálastjórnar ríkisins. Ég tel að við getum tekið þá umræðu alveg sjálfstætt, hvernig eigi að skipa stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins, úr því að menn eru að taka þessa umræðu sérstaklega núna. Ég tel að það hafi verið færð fyrir því mjög gild efnisleg rök að það sem er eðlilegt við þessar aðstæður að Alþingi eitt og sér kjósi stjórn Húsnæðisstofnunar. Ég hef líka bent á það m.a. sem viðbótarrök við hin almennu að það eru líka praktísk vandamál þessu samfara, að fara einhverja tilnefningarleið, vegna þess að einmitt í þessum málaflokki, húsnæðismálunum, eru svo margir sem eru kallaðir til sem telja ekki óeðlilegt að úr því að einn sé tilnefndur, þá sé annar tilnefndur. Ég rakti einmitt dæmi um það bæði varðandi sveitarstjórnarstigið en ég taldi ekki óeðlilegt að þeir ættu fulltrúa í stjórninni og eins önnur stór hagsmunasamtök, stéttarfélög eins og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Ég held að við værum fyrr en varir komin í fullkomnar ógöngur og að húsnæðismálastjórn væri ekki skipuð 10 fulltrúum eins og t.d. hv. 5. þm. Vestf. er að leggja til, heldur miklu fleirum, þess vegna værum við komin í fullkomnar ógöngur með þetta tilnefningarstand.