Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 15:10:43 (7825)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Umræður um frv. til laga um Húsnæðisstofnun hafa nú verið töluverðar og þær hafa ekki síst snúist um stjórnsýsluþáttinn og hvernig á að skipa honum í framtíðinni þótt það séu að sjálfsögðu fleiri atriði í frv. sem eru skiptar skoðanir um. Það má segja að hæstv. félmrh. hafi stytt sér dálítið leið með því að framkvæma hluta frv. áður en það er samþykkt. Því hafa umræðurnar kannski ekki snúist um tæknideild stofnunarinnar eins og skyldi nema þá vinnubrögðin sem eru alveg forkastanleg, að framkvæma lög að hluta til sem ekki er búið að samþykkja enn þá og eru hér til 2. umr. á Alþingi.
    En fyrst það er verið að þrælast í þessari umræðu þegar aðeins þrír dagar eru eftir og það er eftir að ræða mörg stórmál hér í þinginu þá verður að áætla a.m.k. að þetta mál um Húsnæðisstofnun sé á forgangslista ríkisstjórnarinnar, sé á raunverulegum forgangslista en ekki einhverjum grínforgangslista sem hefur heyrst hér af og fjallar t.d. um að afgreiða á tveimur dögum frv. um að breyta viðskiptabönkunum í hlutafélög, frv. sem ekki er komið fram. En maður skyldi ætla að þetta frv. væri á hinum raunverulega forgangslista. Það skýtur nú dálítið skökku við að það skuli einmitt vera þetta sem er forgangsverkefni í húsnæðismálum hjá hæstv. félmrh. og hæstv. ríkisstjórn.
    Við vorum í félmn. í morgun að ræða ágæta skýrslu sem var sett í hólf okkar þingmanna í gærkvöldi um afleiðingar atvinnuleysis. Í þessari skýrslu eru ýmsar fróðlegar upplýsingar um stöðu og hagi atvinnulauss fólks í landinu. Eitt af því sem fer verst með atvinnulaust fólk samkvæmt þessari könnun er að geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Það er það sem dregur ekki síst þetta atvinnulausa fólk niður. Það er ekki síst vegna þess sem örvænting þess er svo mikil. Það hefði verið meira við hæfi að þessum síðustu dögum hefði verið varið í það að ræða hvernig á að bregðast við þessum málum, þessum greiðsluerfiðleikum fólks heldur en að vera að ræða hvernig á að draga þessa stofnun undir ráðherra.
    Það hafa verið skiptar skoðanir um það hér og eini stjórnarliðinn sem hefur talað í þessu máli hefur dregið úr því að það sé verið að samþykkja hér eins mikið miðstýringarfrv. og við í minni hlutanum höfum viljað vera láta. Hv. 3. þm. Vestf. orðaði það þannig ef ég hef tekið rétt niður eftir honum að sjálfstæðar stofnanir geti verið missjálfstæðar. Það er sjálfsagt alveg rétt að þær geti verið missjálfstæðar. En ég stend við allt sem ég hef sagt fyrr í þessari umræðu að hér er um argasta miðstýringarfrv. að ræða og þessi mál eru dregin úr höndum húsnæðismálastjórnar og undir hæstv. félmrh. Ég þarf ekki annað en að vitna í 4. gr. í 2. tölul. hennar til að sýna hvað þessi yfirráð eru algjör og hvað miðstýringin er algjör. Í 2. tölul. 4. gr. segir svo um hlutverk húsnæðismálastjórnar eftir breytinguna, að hlutverk sé:
    ,,Að gera tillögur til félagsmálaráðherra`` --- að gera tillögur, takið eftir --- ,,að fjárhagsáætlun þar sem fram komi sundurliðaður áætlaður rekstrarkostnaður og fyrirhuguð skipting ráðstöfunarfjár milli útlánaflokka byggingarsjóðanna og meginsjónarmið um ráðstöfun þess.``
    Sem sagt á ráðherra eftir þessu að fara yfir rekstrarkostnað húsnæðismálastjórnar í smáatriðum, tillögur um rekstrarkostnaðinn eiga að koma inn á borð ráðherra til að hæstv. ráðherra geti farið yfir þá dálka. Síðan segir í 3. tölul. 4. gr.:
    ,,Að úthluta framkvæmdaraðilum lánum til félagslegra íbúða og skera úr vafa- og ágreiningsmálum varðandi einstakar lánveitingar.`` Eins og áður hefur komið fram ber öllum fræðimönnum sem komið hafa til félmn. saman um að í þessu máli sé málskotsréttur til ráðherra þannig að ráðherra hefur úrskurðarvald um einstakar láveitingar.
    Til félmn. hafa komið fjölmargir sérfræðingar til að ræða um þetta mál. M.a. hefur ríkisendurskoðandi komið á fund nefndarinnar til að tjá sig um málið. Hann sagði eitthvað á þá leið að þessi málskotsréttur til ráðherra væri ekki góð latína. Ragnar Aðalsteinsson lögfræðingur, sem hefur kynnt sér þessi mál sérstaklega, það liggur eftir hann skýrsla hér í gögnum félmn., var á sama máli. Þannig að þetta styður nú allt saman að fullyrðingar sem komið hafa hér fram um það í þessari umræðu m.a. að hæstv. félmrh. sé eftir samþykkt þessa frv. orðinn eins konar húsbankastjóri, séu réttar. Ég sé ekki að það sé neinn misskilningur í því fólginn hjá minni hlutanum að þetta sé allt saman rétt.
    Hvernig skyldi þetta nú ríma við stefnu þessarar ríkisstjórnar? Í upphafi ferils síns --- það var nú að vísu ekki fyrr en eftir nokkra mánuði því að stjórnarsáttmáli þessarar ríkisstjórnar var saminn úti í Viðey milli tveggja manna og settur þar ofan í kistu. Hins vegar fannst stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar og forsvarsmönnum hennar réttara að setja eitthvað niður á blað svona eftir að það var búið að starfa í nokkra mánuði. Og í október 1991 var sett saman bók sem er svokölluð hvítbók og heitir Velferð á varanlegum grunni. Stefna og starfsáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Það var reyndar upplýst hér umræðum í gærkvöldi af hv. 3. þm. Reykn. að aðalvandkvæðin í efnahagsmálum væru of mikið öryggi þegnanna, vegna of mikils öryggis þá spöruðu þeir ekki eins og skyldi. En það var nú útúrdúr. En hér

stendur í þessari bók, á bls. 15 um ríkisstofnanir, undir kaflanum um einkavæðingu opinberrar starfsemi, hér er það í mörgum liðum: Markmið og framkvæmd einkavæðingar, sala ríkisfyrirtækja, opinber hlutafélög. Síðan kemur hér og takið nú eftir:
    ,,Aukið sjálfstæði ríkisstofnana.`` ( RA: Hvar stendur þetta?) Hér stendur þetta á bls. 15 í þessari hvítu bók ríkisstjórnarinnar. ( IP: Það er nú eiginlega kominn svartur blettur á hana.) Hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Sjálfstæði opinberra stofnana verður aukið, þannig að saman fari aukin ábyrgð og aukið ákvörðunarvald, er færist í hendur stjórnenda þeirra.`` (Gripið fram í.)
    Er þetta í samræmi við það frv. sem hér liggur frammi, hv. 17. þm. Reykv. og flokksformaður Alþfl.? ( ÖS: Þú getur nú komist að því.) Ég held ekki. Hér stendur einnig, með leyfi forseta:
    ,,Í öðrum tilvikum er stefnt að því að bjóða út rekstur og þjónustu einstakra stofnana og aðskilja þannig rekstrarlega ábyrgð annars vegar og útgjöld hins opinbera hins vegar.``
    En hins vegar hefur hæstv. félmrh. komið hér með krók á móti bragði því ef maður flettir hér yfir á bls. 20 þá er rætt um húsnæðismál. Þar er talað um í upphafi, með leyfi forseta:
    ,,Húsbréfakerfið verði fest sessi og leitað leiða til að koma betra jafnvægi á húsbréfamarkaðinn, m.a. með því að minnka lánsfjárþörf ríkissjóðs.``
    Síðan segir hér, með leyfi forseta: ,,Stjórnskipulegri stöðu Húsnæðisstofnunar ríkisins verður breytt á komandi þingi þannig að saman fari vald og ábyrgð í húsnæðismálum.``
    Ef þetta rímar saman við einkavæðinguna þá ætti þetta frv. sem hér er komið til umræðu að fjalla um að gera stofnunina sjálfstæðari í staðinn fyrir að draga hana inn á borð ráðherra. Það er verst að fulltrúar Sjálfstfl. í félmn. skuli allir vera horfnir á braut. Þeir hafa nú yfirleitt passað sig á því að vera ekki hér inni á meðan þessi umræða fer fram. Ég að vísu tek fram að hv. 3. þm. Vestf. kom til mín og gat þess við mig að hann væri að hverfa á braut þannig að ég vil að það komi fram til að allrar sanngirni sé gætt. En aðrir fulltrúar hafa ekki látið sjá sig við þessa umræðu. Hér eru aðeins tveir hv. þm. Sjálfstfl. sem ekki hafa nú alltaf farið sömu götu og flokkurinn í umræðum og atkvæðagreiðslum á Alþingi til þessa. Ég er hissa á því ef þeir tveir ágætu þingmenn sem hér eru staddir samþykkja það miðstýringarfrv. sem hér er um að ræða.
    Það má spyrja af því að ég kom inn á áðan greiðsluerfiðleikana og hina gífurlegu erfiðleika sem margir þjóðfélagsþegnar eiga í með að standa í skilum og standa við sínar skuldbindingar núna á þessum erfiðu tímum þar sem enginn er öruggur um að halda atvinnunni þegar til lengri tíma er litið og fjölmargir sem hafa bakað sér miklar skuldbindingar eru atvinnulausir. Það má spyrja hvort þetta frv. sem hér um ræðir er eitthvert tæki í því að ráða bót á þessum málum. Ég spyr hæstv. félmrh.: Hvenær ætlar félmrh. sér að leggja fram tillögur varðandi greiðsluerfiðleikana? Er meiningin að taka á þeim málum? Eða er meiningin að láta þetta eiga sig eins og sjávarútvegsmálin? Er meiningin að fresta greiðsluerfiðleikamálunum, til haustsins til að byrja með, og fresta þeim síðan til vorsins? Það virðist vera aðalstyrkur þessarar ríkisstjórnar eins og kom fram í sjónvarpsviðtölum við hæstv. sjútvrh. og hæstv. forsrh. í gærkvöldi, að vera ósammála um sem flest. Það er einkennileg kenning. Á að leggja fram tillögu um að mæta greiðsluerfiðleikum húsbyggjenda? Hver er ætlun ríkisstjórnarinnar í þeim efnum? Hún verður varla lögð fram á þessu þingi því það var upplýst í umræðum um þingsköp hér rétt áðan að það er ætlunin að hætta hér á fimmtudaginn. Þannig að það er meiningin að lulla áfram við svona ýmis mál en láta öll stóru málin eiga sig. Þetta er nú frammistaða í lagi. Ég hef satt að segja aldrei upplifað aðra eins daga og þessa hér á Alþingi og aðra eins uppgjöf við að glíma við aðsteðjandi vandamál sem vissulega eru mikil, því ber ég ekki á móti.
    Ef litið er svo á þetta frv. tæknilega og út frá lagatæknilegu sjónarmiði þá kemur það fram hér í hinum ítarlegu skýrslum um sjálfstæðar ríkisstofnanir að það er engin ákveðin regla í þeim efnum. Það er rétt sem hv. 3. þm. Vestf. sagði hér fyrr í umræðunni að ríkisstofnanirnar eru missjálfstæðar. En það er ætlunin að Húsnæðisstofnun verði bara alls ekkert sjálfstæð eftir þessa breytingu. Og það hefði nú kannski verið nærtækara verkefni að setja vinnu í það að skoða sjálfstæði ýmissa ríkisstofnana og reyna að hafa eitthvert samræmi í þeim efnum frekar en að láta það bara vera undir duttlungum hæstv. ráðherra hvaða ráðherra lendir inni í ráðuneyti hverju sinni hvert sjálfstæði stofnana ríkisins er. Að það sé aukið á glundroðann í þeim efnum. Það kemur fram að það er ekkert ákveðið og fast skipulag í þessum málum. Hér segir á bls. 7 í skýrslu Ragnars Aðalsteinssonar um þessi mál frá 1988, með leyfi forseta:
    ,,Verður að líta til löggjafarinnar um stöðu einstakra stofnana til að unnt sé að lýsa stöðu stofnunar, valdsviði og tengslum við ráðherra. Sjálfstæði þessara stofnana gagnvart ráðherra er mjög mismikið. Ekkert einstakt kennimark sker þar úr.``
    Það hefði því verið nærtækara verkefni að samræma þetta heldur en að það sé eins og ég sagði háð duttlungum einstakra ráðherra hvaða skipan er höfð í þessum efnum. Hér segir enn fremur, á bls. 10, sem er mjög athyglisvert, með leyfi forseta:
    ,,Um Húsnæðisstofnun ríkisins gilda nú lög nr. 60/1984, með síðari breytingum. Í lögunum er tekið fram að stofnunin sé sjálfstæð ríkisstofnun sem lúti sérstakri stjórn og heyri undir félagsmálaráðuneytið.`` Þá er tekið fram að stofnunin fari með stjórn hins opinbera veðlánakerfis. Nú er meiningin að afnema sjálfstæði stofnunarinnar með lögum og þá fer félmrh. eftir það með stjórn hins opinbera veðlánakerfis. Það

er engum blöðum um það að fletta að hæstv. félmrh. er orðinn bankastjóri eftir þessa breytingu. Þar stendur hún jafnfætis öðrum ráðherrum sem heyrst hefur að stefni á bankastjórastól. Ég get ráðlagt hæstv. félmrh. það af því að hún hefur uppálagt Seðlabankanum að spara að hún gæti nú fengið pláss í Seðlabankanum fyrir þennan nýja banka sem hún hefur yfirstjórn yfir samkvæmt þessu frv.
    Ég vil ekki bera hæstv. félmrh. það á brýn að hann hafi misnotað nein laxveiðileyfi en hins vegar er ekki hægt að tala um slík mál endalaust í umræðum hér á Alþingi án þess að aðhafast neitt meira. Það er nefnilega dálítið vinsælt í umræðum hér á Alþingi að tala um ýmsar sporslur, bæði laxveiðileyfi og annað, risnu og dagpeninga án þess að hafast nokkuð að. Ég vildi ráðleggja hæstv. ráðherrum að tala heldur minna um þau mál og aðhafast þá meira. Að það sé eitthvað á bak við það sem hæstv. ráðherrar eru að tala um.
    Húsnæðismálastjórn gaf umsögn um þetta frv. á sínum tíma. Ég gat í fyrri ræðu minni um þá umsögn og helstu efniskafla hennar og ætla ekki að bæta þar miklu við. Hins vegar segir í þeirri umsögn, með leyfi forseta:
    ,,Allar breytingar í 1. gr. frv. miða að því að rýra sjálfstæði stofnunarinnar og auka vald félagsmálaráðherra.``
    Enn fremur segir, með leyfi forseta:
    ,,Þau sjónarmið, sem kunna að liggja að baki ofangreindri skipan mála, geta verið margvísleg. Í fyrsta lagi er rekstur lánastofnana sérhæfð starfsemi og vart er hægt að ætla að heppilegt sé að slíkri starfsemi sé stýrt beint af Stjórnarráði eða ráðherra.
    Í öðru lagi er hér um að ræða starfsemi sem ríkið hefur tekið að sér án þess að bein rök liggi til þess að starfsemin sé í höndum ríkisins, að minnsta kosti gildir þetta um sjálf útlán þessara stofnana. Af þeim sökum kunna menn að sækjast eftir því að starfsemi þessi sé sem minnst háð stjórnmálalegum afskiptum og sem mest á viðskiptalegum grundvelli. Aukin afskipti framkvæmdarvaldsins af rekstri Húsnæðisstofnunar og lánastofnana almennt eru að mati stjórnarinnar síst til bóta og með þeim væri verið að innleiða hér á landi stjórnarhætti í rekstri lánastofnana sem úreltir eru og hafa reynst illa hvarvetna annars staðar. Gengið væri þvert á stefnu aukins markaðsbúskapar og á þá stefnu að ákvarðanir lánastofnana, þótt þær séu í eigu ríkisins, séu alfarið byggðar á efnahagslegum forsendum. Það er mat húsnæðismálastjórnar að ofangreindar breytingar muni færa stjórn, rekstur og útlánastarfsemi stofnunarinnar að mestu undir beina stjórn ráðherra. Slík breyting er afar óæskileg að mati húsnæðismálastjórnar.``
    Síðan segir, með leyfi forseta:
    ,,Í raun mælir margt fremur með því að sjálfstæði stofnunarinnar verði frekar aukið en að úr því verði dregið. Það er álit húsnæðismálastjórnar að færa ætti ákvarðanir um vexti af útlánum sjóðanna til húsnæðismálastjórnar jafnframt því sem löggjöfin um Byggingarsjóð verkamanna væri afdráttarlaus um það hvernig staðið skuli að fjármögnun á vaxtaniðurgreiðslu sjóðsins. Núverandi fyrirkomulag vaxtamála hefur orðið til þess að tefja aðlögun útlánsvaxta að vaxtakostnaði sjóðanna og hefur það skapað fortíðarvanda hjá þeim.``
    Það mætti í sjálfu sér tína margt annað til úr þessari umsögn. Hún er bullandi neikvæð um þetta mál og það sem meira er af því að við vitum öll, hv. þm. og hæstv. ráðherrar, að stjórn Húsnæðisstofnunar er saman sett af fjölmörgum aðilum með mismunandi sjónarmið bæði í stjórnmálum og öðrum málum en þessi umsögn er samhljóða um þetta atriði. Stjórnin er ósammála um önnur atriði eins og t.d. hönnunardeildina, þar er hún ekki sammála en um þetta atriði eru allir sammála, stjórnsýsluþáttinn, sem er aðalkafli þessa frv.
    Einnig sendi Samband íslenskra sveitarfélaga frá sér umsögn. Þar er minnt á útibú í landshlutunum. Ég hef reyndar ekki verið neinn sérstakur talsmaður þess að það sé verið að búa til eitthvern yfirstjórnarbatterí á þessa stofnun. Ég er stuðningsmaður þess að leita leiða til að þessi afgreiðsla sé sem einföldust, sé aðgengileg sem flestum. Það sé t.d. skoðað til hlítar hvort bankarnir geta veitt meiri þjónustu í þessum efnum. En Samband íslenskra sveitarfélaga minnir á þetta, að þessi þjónusta sé öllum landsmönnum aðgengileg, og vill að það sé dregið úr starfsemi stofnunarinnar á aðalskrifstofunni í Reykjavík. Þetta gæti auðvitað verið verkefni sjálfstæðrar stofnunar. Það þarf ekki frv. til að ákveða þetta. Síðan er ítrekuð sú skoðun að sveitarfélögin fái aðild að stjórn Húsnæðisstofnunar. Þessu hefur í engu verið sinnt og ekkert rætt í alvöru. Sú breyting sem gerð er á stjórn stofnunarinnar tekur ekkert á þessu máli. Enn fremur er í þessari umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga minnt á það og dregin eðlilega sú ályktun af því að það er verið að ýta fulltrúum aðila vinnumarkaðarins út úr stjórn Húsnæðisstofnunar að það sé þá tekin sú ákvörðun í leiðinni að sveitarfélögin sjái alfarið um húsnæðisnefndirnar. En það er ekkert samræmi í því og ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Er það þá meiningin í framhaldi af því þegar búið er, ef það tekst, að ýta fulltrúum aðila vinnumarkaðarins út úr stjórn Húsnæðisstofnunar og breyta þar um, að leggja til að þeir fari einnig út úr húsnæðisnefndum sveitarfélaga? Hér segir í umsögninni um þetta atriði, með leyfi forseta:
    ,,Stjórnin telur rétt að breyta ákvæðum núgildandi laga um húsnæðisnefndir sveitarfélaga og kosningar til þeirra. Miðað við ábyrgð sveitarfélaga á félagslega húsnæðiskerfinu er eðlilegast að sveitarstjórnirnar einar skipi húsnæðisnefndir sveitarfélaganna sem starfa á þeirra ábyrgð. Sú skipan á enn frekar við ef fulltrúar atvinnulífs hverfa úr stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins.``
    Mér er í fersku minni þegar lögin um félagslegar íbúðir eða breytingar á lögum um félagslegar

íbúðir voru samþykkt og undirbúin af nefnd sem ég átti sæti í að einmitt þetta atriði, skipan húsnæðisnefnda sveitarfélaga var hörkudeilumál í þeirri nefnd og fulltrúar aðila vinnumarkaðarins sátu þar inni áfram til samkomulags og menn treystu sér ekki til í nefndinni þá að leggja það til að þessir aðilar hyrfu á braut vegna mikillar andstöðu þeirra. Fulltrúar sveitarfélaganna töldu það vera rök fyrir því að það væri búið að leggja það miklar skyldur á herðar sveitarfélögunum í þessum málum að þau ættu að ráða yfir þessum nefndum og ættu ekki að taka aðra aðila þar inn. Þannig að það rekur sig hvað á annars horn með þessar breytingar. Það er ekkert samræmi í þessum breytingum. Hvað er meiningin að framhaldið verði í þessu? Er það ætlun hæstv. félmrh. að leggja fram frv. um breytingu á þessum ákvæðum um skipan húsnæðisnefndanna?
    Ég ætla ekki að lengja þetta öllu meira við þessa 2. umr. Ég áskil mér auðvitað rétt og þarf auðvitað ekki að gera það því ég get komið nánar að þessum málum við 3. umr. málsins. Mér finnst þetta frv. eins og það liggur hér fyrir vara alveg dæmalaust og framkvæmdin á því hingað til, ekki síst að vera búin að framkvæma hluta af því áður en það er samþykkt og það hefur komið fram í þessari umræðu og það rekur sig eitt á annars horn í frv. Það er engin stefnumörkun um það hvort það á að auka sjálfstæði stofnunarinnar eða minnka það. Það er takmark ríkisstjórnarinnar að breyta bönkunum í hlutafélög og losa þá við pólitísk áhrif sem allra mest og talið uppspretta alls ills að stjórnmálamenn hafi áhrif í bönkunum. Síðan koma þau sjónarmið á móti að það að lána fólki peninga til að byggja hús sé hluti efnahagsmálanna í landinu og eigi að fara með þann rétt fólks eftir því hvernig efnahagsmálin þróast þá og þá. Lán til þess að kaupa bíl eru sömuleiðis hluti efnahagsmálanna í landinu. Er ekki best að draga allt valdið til þess að lána bíla undir vald einhvers annars ráðherra? Eða kannski gera það að deild í Húsnæðisstofnun? Það er engin stefna í þessu. Það fyrirkomulag sem nú er er enginn þrándur í götu þess að það sé hægt að koma fram brýnum úrbótum í húsnæðismálum sem hefur verið bent á hér við þessa umræðu og fluttar brtt. við sumt af því. Það skipulag sem nú er stendur ekki í vegi fyrir þessu. Ég veit ekki hvaða árekstrar helst hafa verið milli Húsnæðisstofnunar og stjórnar hennar og hæstv. félmrh. Mig rámar eitthvað í að einhvern tímann hafi verið uppi deila um vexti af húsnæðislánum án þess að ég kunni í smáatriðum eða ætli að vera að rekja þá deilu. En ég held að þetta hafi ekki verið mikið vandamál í gegnum tíðina. Að Húsnæðisstofnun og stjórn hennar út af fyrir sig hafi kollvarpað efnahagsmálunum í landinu. Og stjórn húsnæðismála þurfi þess vegna að vera undir allsherjarmiðstýringu ráðherra. Ég get ekki séð það. En ég ætla að láta þetta verða mín síðustu orð við 2. umr. málsins en að sjálfsögðu kemur málið hér aftur fyrir í 3. umr. og ég get þá lagt þar orð í belg ef mér finnst ástæða til.