Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 15:48:30 (7826)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Austurl. vakti athygli á því ósamræmi sem er á milli orða og athafna hjá hæstv. ríkisstjórn, á milli þeirrar stefnuyfirlýsingar sem er að finna í hvítu bókinni um aukið sjálfstæði ríkisstofnana --- sem að vísu varð síðar upplýst að þingflokkarnir hefðu ekki samþykkt en jafnframt að ráðherrarnir hefðu samþykkt það --- og þessa frv. sem dregur valdið úr höndum stofnunarinnar til ráðherra og hefur með eftirminnilegum hætti gert frv. hæstv. félmrh. að aðhlátursefni og hvítu bókina þar sem rakið er enn eitt dæmið um það sem ríkisstjórnin hyggst gera og það sem hún raunverulega gerir. Það sem mér þótti athyglisverðast var ábending hv. þm. um atriði sem mér finnst ástæða til að hljóti verðskuldaða athygli í þessari umræðu en það er að rökstuðningurinn í frv. fyrir því að það þurfi að henda út fulltrúum hagsmunaaðilanna er sá að ríkisstjórnarliðið á Alþingi á hverjum tíma þurfi að hafa meiri hluta fulltrúa í stjórninni. Þessi sami rökstuðningur ef hann er ,,konsekvent`` og ef honum er beitt áfram í lögunum hlýtur að kalla á það að ríkisstjórnin eða ráðherrann leggi fram tillögu um að breyta húsnæðisnefndunum þannig að meiri hlutinn í sveitarstjórn hafi ætíð ótvíræðan meiri hluta í húsnæðisnefnd. Þetta finnst mér atriði sem hefur farið fram hjá okkur í umræðunni en væri vert að gera verðug skil og hæstv. ráðherra eyddi nokkrum orðum að þessu atriði.