Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 16:11:12 (7831)

     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra nefndi hér áðan brtt. sem við flytjum hér á þskj. 1050 um endurbætur á eldra húsnæði í félagslega kerfinu og spurði hvort við gerðum okkur grein fyrir hvað þetta mundi kosta. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta muni kosta einhverja peninga. En ég spyr ráðherra á móti: Gerir hæstv. ráðherra sér grein fyrir því hvað það kostar að þessir félagslegu íbúðir eru að rotna? Þær eru að skemmast og ég veit til að heilu blokkirnar liggja svo undir skemmdum, ef ekkert verður að gert, að eftir svona fimm ár er ekkert annað en bara að ýta þeim í burtu. Þarna er um stórmál að ræða. Hæstv. ráðherra sagði að það væri nefnd að endurskoða þetta m.a. og þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvers vegna í ósköpunum er hún að flýta sér með þetta frv. sem hér er til afgreiðslu? Af hverju er ekki heildarendurskoðun á þessum málum? Þetta er eitt af þeim brýnu málum sem menn bíða eftir úrlausn á.