Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 16:12:38 (7832)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ráðherra svarar spurningum sem fram hafa komið í umræðunni fram til þessa með svipuðum hætti og fyrirspurn hér rétt áðan í andsvari, með þögninni einni.
    Mér þykir rétt að leiðrétta og bera til baka rangar fullyrðingar ráðherrans varðandi rétt hennar til að framkvæma uppsagnir og leggja niður deild á Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Það sem kom fram í fjárlögunum var ekki aðeins ályktun um það sem menn ætluðu að gera heldur var einnig sérstaklega tekið fram að það yrði flutt frv. til að afla lagalegra heimilda til að hrinda þeim málum í framkvæmd. Og í öðru lagi er það rangt sem fram kom hjá ráðherranum að svonefnd hönnunardeild hafi ekki lagastoð. Hún hefur lagastoð í 109. gr. núgildandi laga og heitir þar þjónustusvið tæknideildar. Og í bréfi ráðherrans frá 21. des., þar sem ráðherrann gefur fyrirmæli um það að störf á þessari deild verði lögð niður er skýrt tekið fram ,,þjónustusvið tæknideildar``. Hún hefur lagastoð, virðulegur forseti. Það var einróma niðurstaða húsnæðismálastjórnar og lögfræðinga stofnunarinnar að ráðherrann hefði tekið sér vald sem hann hafði ekki.