Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 20:30:24 (7835)

     Stefán Guðmundsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um þingsköp til að vekja athygli á till. til þál. á þskj. 878 um greiðsluaðlögum fyrir fólk í verulegum greiðsluerfiðleikum. Flm. þessarar till. eru hv. þm. Alþfl., þeir Össur Skarphéðinsson og Sigbjörn Gunnarsson. Ég hef átt viðræður við nokkra þingmenn stjórnarandstöðunnar um þetta mál og hafa þeir allir lýst áhuga sínum og vilja til þess að fá málið tekið á dagskrá og mikill vilji er til þess að reyna að fá málið afgreitt fyrir þinglok.
    Undir umræðum um þingsköp vil ég ekki ræða þetta mjög svo þýðingarmikla mál sem þó væri ástæða til en ég beini þeirri eindregnu ósk til hæstv. forseta að hann geri allt til þess að þáltill. geti komist á dagskrá þingsins þannig að afgreiða megi málið á þessu þingi. Það ástand sem er að skapast í landinu m.a. vegna greiðsluerfiðleika heimila og fjölda einstaklinga er óásættanlegt. Skuldir heimilanna fara sífellt versnandi og eru nú fjórum sinnum hærri en fyrir áratug. Breytt tekjuskipting í landinu, hækkun skatta, lækkun skattleysismarka og stóraukið atvinnuleysi gerir það að verkum að alþingismenn geta ekki farið svo frá þingstörfum að um þessi mál verði ekki fjallað á Alþingi. Ég endurtek því, virðulegi forseti, ósk mína um það að 520. þingmál megi koma á dagskrá þingsins og hljóta afgreiðslu áður en þingstörfum lýkur nú í vor.