Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 20:38:54 (7840)

     Frsm. meiri hluta félmn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að þakka hv. 4. þm. Norðurl. v. fyrir að taka þetta mál upp og vekja athygli á þessu. Ég held að þetta sé einmitt mjög brýnt og ég vil líka þakka forseta fyrir það að tilkynna það hér að þetta mál verði þá efst á lista þeirra nýju þingmála sem tekin verði inn á morgun. Ég vona það sé ekki bara þannig að það verði á dagskránni heldur verði það raunverulega rætt hér. Og ég segi það fyrir sjálfan mig og tala þar fyrir mig persónulega að ég er tilbúin til þess að liðka fyrir að þetta geti fengið umræðu og fljóta afgreiðslu í þinginu og jafnvel í þingnefnd. Í því sambandi vil ég minna á, virðulegur forseti, að hér ekki alls fyrir löngu gáfum við máli ákveðna hraðferð í þinginu og það var þegar ríkisstjórnin var að leggja inn framlag m.a. í Landsbankann til þess að leysa þar ákveðið vandamál sem hafa safnast upp í bankanum vegna greiðsluerfiðleika fyrirtækjanna. Hér er mál sem varðar greiðsluerfiðleika heimilanna og það er ekki síður mikilvægt og í rauninni enn mikilvægara að taka á greiðsluerfiðleikum heimilanna sem m.a. stafa af háum raunvöxtum rétt eins og greiðsluerfiðleikar fyrirtækjanna stafa af háum raunvöxtum. Á árum áður voru neikvæðir vextir í raun og veru ákveðinn styrkur, getum við sagt, til fyrirtækjanna sem almenningur í landinu borgaði. Eftir að raunvextir urðu jákvæðir og eins háir og raun ber vitni hefur það tíðkast núna að milljarðar eru afskrifaðir í bankakerfinu, gífurlegar upphæðir, sem eru auðvitað að vissu leyti framlag til fyrirtækjanna. Við gáfum því máli mikinn forgang og ég tel að okkur beri skylda til að gefa greiðsluerfiðleikum fjölskyldnanna í landinu ekki síður vægi á þinginu og forgang.