Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 20:42:46 (7842)

     Frsm. minni hluta félmn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (frh.) :
    Virðulegur forseti. Þegar ég gerði hlé á ræðu minni fyrr í kvöld, var ég að ræða um tæknideild Húsnæðisstofnunar, þ.e. hönnunardeildina sem er undirdeild tæknideildar, en eins og þingmenn vita hefur öllum starfsmönnum þeirrar deildar verið sagt upp og þeir eru reyndar löngu hættir störfum og reksturinn hefur verið aflagður og eftir því sem mér skilst hefur starfsemin eða eignir tengdar hönnunardeildinni verið seldar. Þetta hefur gerst þrátt fyrir ákvæði til bráðabirgða í því frv. sem við erum að ræða þar sem er heimild til ráðherra til að selja eigur hönnunardeildar Húsnæðisstofnunar ríkisins. Ráðherra taldi sig þurfa þetta ákvæði þar sem ekki væri gert ráð fyrir því í 6. gr. fjárlaga að selja mætti eigur hönnunardeildar þannig að það þyrfti að sækja til þess hingað sérstakt umboð. Þá vil ég sem sagt spyrja ráðherra hvort búið sé að selja og þá með hvaða rétti það er gert.
    Nú getur maður út af fyrir sig skilið að það sé auðvitað freistandi að selja þessar eigur hönnunardeildar, enda hefur hönnunardeildin verið lögð niður samkvæmt fyrirmælum frá ráðherra og þessu fólki sagt upp og auðvitað ekki annað að gera heldur en selja þessar eigur. Ekki síst þar sem gert var ráð fyrir því að þeim starfsmönnum sem þarna stöfuðu stæði til boða að kaupa deildina þannig að þeir gætu þá haldið áfram sínum störfum eins og þeir hafa gert með þennan tiltekna grunn sem var þarna inni á Húsnæðisstofnun. Þetta fylgist auðvitað að, það að leggja til og í rauninni gera kröfu um að hönnunardeildin sé lögð niður, fólkinu sé sagt upp. Af því leiðir auðvitað að eigur deildarinnar verða seldar. Þannig að allt hangir þetta saman og ég vil spyrja ráðherra með hvaða rétti þetta er gert.
    Þetta er auðvitað ekki í fyrsta skipti sem við sjáum slíkt gerast. Ég vil minna á Skipaútgerð ríkisins þar sem í rauninni var gengið frá öllum þeim málum og skip seld áður en komið var með frv. til laga hingað um það mál. Það sama gerðist með Menningarsjóðinn. Menningarsjóðurinn var lagður niður, fólki sagt upp störfum, eigur seldar og lager og enn er ekki búið að breyta lögum um Menningarsjóð hérna á þingi. Að vísu liggur fyrir frv. um það sem á eftir að hljóta afgreiðslu, en allt þetta hefur gerst þrátt fyrir að engin lagaheimild sé fyrir því. Þetta er farið að gerast æ tíðar og það er löngu tímabært að þingið spyrni við fótum og láti ekki fara svona með sjálfstæðar ríkisstofnanir eins og þarna er um að ræða. Ráðherrar eru í rauninni farnir eða komnir með fótinn skulum við segja inn fyrir dyr á þessum sjálfstæðu ríkisstofnunum og haga sér þar eins og þær væru almennar ríkisstofnanir sem heyrðu beint undir þá og það gerðist auðvitað í Menningarsjóðsmálinu. Menningarsjóðsmálið sýndi okkur reyndar fram á ákveðinn veikleika sem fylgir hinni sjálfstæðu ríkisstofnun vegna þess að þingið á erfitt með að hafa þar eftirlit, en það væri hægt að styrkja þann eftirlitsþátt t.d. í gegnum umboðsmann Alþingis. Og ég held að tímabært væri að skoða það. Ég held að það væru einmitt hagsmunir þingsins að skoða það að styrkja eftirlitsþátt umboðsmanns Alþingis með þessum sjálfstæðu stofnunum.
    Það er sjálfsagt eðlileg tilhneiging hjá ráðherrum sem fulltrúum framkvæmdarvaldsins að reyna að seilast inn í þessar stofnanir, reyna að tengja þær fastar inn í ráðuneytin, reyna að fá ákveðin völd yfir þessum sjálfstæðu stofnunum. Í þeirra augum er það spurning um skilvirkni, er það spurningin um að koma sínum málum fljótt fram og spurningin um að þessar tilteknu stofnanir vinni í samræmi við þá stefnu sem ráðherrar hafa á hverjum tíma. Þetta er út af fyrir sig ekki óeðlilegt séð frá þeirra bæjardyrum, en þetta er mjög óeðlilegt séð frá þinginu og það er hagsmunamál þingsins að reyna að passa upp á þessa hluti og láta þetta ekki viðgangast. Og ég vil sem sagt spyrja og fá nánari upplýsingar hjá ráðherra um það hvernig staðið var að málum varðandi hönnunardeildina þegar hún var lögð niður.
    Ég kom hérna inn á það fyrr þegar við ræddum þetta mál að sú miðstýring sem þarna er í gangi dettur ekki af himnum ofan í þessu tiltekna máli. Þetta er tilhneiging sem er í gangi í ráðuneytunum, að auka miðstýringu. Í því sambandi nefndi ég sérstaklega hina svokölluðu hlutafélagavæðingu ýmissa ríkisfyrirtækja og nægir þar að nefna Sementsverksmiðjuna og Áburðarverksmiðjuna. Við höfum séð þetta með Þvottahús Ríkisspítalanna, það eru hugmyndir uppi um að gera það að hlutafélagi o.s.frv. Það sem gerist við þessa svokölluðu hlutafélagavæðingu er að inn í stjórnir þessara stofnana koma fulltrúar frá ráðherrunum. Það er ekki lengur þingið sem skipar stjórnirnar heldur ráðherrann. Þar með er þetta ekki lengur fjölskipað stjórnvald heldur er þetta skipað beint af ráðuneyti eða ráðherra og hann getur í sjálfu sér komið því þannig fyrir að það séu aðeins hans pólitísku jábræður sem þarna sitji inni. Það segir mér nú að það sé alls ekki fyrir það girt með þeim hætti að þarna geti komist að ákveðin fyrirgreiðslupólitík eða bitlingapólitík eða spilling eða hvað við viljum kalla það. Því að það sem líka hefur gerst í þessum málum er að ekki er gert ráð fyrir tilnefningum, ráðherra ræður því bara einhliða hverja hann skipar þarna inn. Hann á ekki að gera það samkvæmt tilnefningum t.d. hagsmunaaðila eða þeirra sem sérstaka þekkingu eða vit hafa á málum. Þetta þýðir einnig, fyrst það eru teknir út eins og í þeim tilvikum þingkjörnir fulltrúar og settir inn fulltrúar ráðherrans og þeir eru ekki samkvæmt tilnefningu, að það eru æ færri aðilar sem koma að málum og völdin og áhrifin safnast alltaf á æ færri hendur. Í þessu felst m.a. þessi miðstýring.
    Eins og ég sagði áðan, þá er kannski ekki skrýtið að ráðherrum þyki þetta freistandi. Þeir vilja fá þarna einhverjar skilvirkar stofnanir til að vinna fyrir sig og í samræmi við þá stefnu sem þeir móta. Þeir vilja að ýmsu leyti nýta þessar stofnanir sem einhvers konar framlengingu á ráðherravaldi. En það er ekki síður mikilvægt að horfa á þessar stofnanir frá svolítið öðru sjónarhorni. Þegar því sjónarhorni er beitt þá sér maður hversu mikilvægt er að til séu stofnanir í þessu samfélagi sem geti haft ákveðið frumkvæði, sem geti haft ákveðið frelsi og frumkvæði og geti skapað grunn sem nýtist síðan við stefnumörkun. Ég held að þetta sé t.d. mjög mikilvægt varðandi Þróunarsamvinnustofnun, Byggðastofnun og Húsnæðisstofnun. Að þessar stofnanir hafi ákveðið sjálfstæði til þess að brydda upp á nýjungum, til þess að skoða nýja hluti, til þess að hafa frumkvæði, til þess að leggja eitthvað til málanna í nýrri stefnumörkun að eigin frumkvæði, ekki vegna þess að það komi einhver ósk um það endilega frá ráðherrum eða ráðuneytum heldur að eigin frumkvæði. Síðan eiga auðvitað ráðherrar og þingmenn að geta nýtt þessa vinnu til þess að móta stefnu, til þess að marka stefnuna. Þeir eiga síðan að taka hina pólitísku ákvörun um þá stefnu sem þeir vilja hafa í heiðri á hverjum tíma og þeir eiga að geta tryggt að hún komist til framkvæmda, m.a. í gegnum það að þeir hafi ákveðna fulltrúa í stjórnum þessara stofnana eða meiri hlutinn á þingi og eins með lögunum og reglugerðarvaldinu svo að því sé nú ekki gleymt því að það er mjög víðtækt. Ráðherrann hefur t.d. mjög víðtækt reglugerðarvald samkvæmt lögunum um Húsnæðisstofnun og getur haft heilmikil áhrif þar.
    Það hefur verið bent á það hér að ekki fari nú alveg saman orð og efndir hjá þessari ríkisstjórn og var vitnað hér til hvítbókarinnar. Ég held að það blandist engum hugur um það sem kíkir í þessa hvítbók að ekki vantar fögur fyrirheit og góð áform, en framkvæmdin er nú dálítið önnur heldur en þar er gefið fyrirheit um. Í hvítbókinni segir einmitt um sjálfstæði opinberra stofnana: ,,Sjálfstæði opinberra stofnana verður aukið þannig að saman fari aukin ábyrgð og aukið ákvörðunarvald er færist í hendur stjórnenda þeirra``.
    Mér finnst að þegar við horfum á það sem hefur verið að gerast hérna og þessa tilhneigingu sem er í gangi, þá sé þetta eins og hvert annað öfugmæli. Bæði sjáum við það varðandi Ríkisútvarpið þar sem er beinlínis seilst inn í sjálfstæði þeirrar stofnunar með því að skipa mann þar í toppstöðu sem áður hafði verið vikið frá í lægra settri stöðu. Þetta er auðvitað ekkert annað en að lýsa yfir vantrausti á þann mann sem er æðstur innan veggja. Þar að auki sjáum við það varðandi Húsnæðisstofnun að það er svo sannarlega ekki verið að auka sjálfstæði hennar þannig að þar fari saman aukin ábyrgð og aukið ávörðunarvald, heldur að verið væri að flytja það í meira mæli en við höfum lengi séð yfir til ráðherra.
    Það kann vel að vera að sumum finnist að þarna sé nú ekki mjög stórvægilegt mál á ferðinni, þessi stjórnskipunarþáttur. En ég held að hann sé miklu stærri heldur en margir gera sér grein fyrir. Ég held að

það væri mjög hollt fyrir þingmenn og mikilvægt fyrir þá að velta því fyrir sér hvernig á því stóð upphaflega að settar voru á laggirnar sjálfstæðar ríkisstofnanir. Auðvitað hafði það ákveðinn tilgang. Það þjónar ákveðnum tilgangi að búa til þetta tvískipta kerfi, að vera annars vegar með ríkisstofnanir sem heyra beint undir ráðherra og eru nokkurs konar hluti af ráðuneyti og vera hins vegar með ríkisstofnanir sem væru sjálfstæðar. Það er líka engin tilviljun hvernig stofnanir það voru sem gerðar voru að sjálfstæðum ríkisstofnunum, þ.e. bankar og lánastofnanir og auðvitað er Húsnæðisstofnun mjög stór lánastofnun. Og það voru líka menningarstofnanir og stofnanir eins og Þróunarsamvinnustofnun og Byggðastofnun. Það var auðvitað ákveðinn tilgangur sem vakti fyrir löggjafanum á sínum tíma og ég verð nú segja það að mér finnst ég verða þess nokkuð vör í umræðum hér á þingi, þegar verið er að breyta lögum, að menn gera sér ekki alveg grein fyrir og velta því kannski ekki mjög mikið fyrir sér hvað vakti fyrir löggjafanum upphaflega, þegar hann setti lög. Ég vil í því sambandi nefna að við höfum verið hér á þingi að fjalla um aukið frelsi í sölu á tóbaki. Við erum að fjalla um aukið frelsi í sölu á lyfjum og það var auðvitað ákveðin ástæða fyrir því að löggjafinn ákvað á sínum tíma að hafa mjög mikil höft á sölu áfengis, tóbaks og lyfja vegna þess að hann leit ekki á þetta eins og aðrar vörutegundir. Hann taldi að þessar vörutegundir væru með ákveðnum hætti mjög sérstakar, en nú er talað um þær eins og þær séu bara hver önnur flík sem maður á að geta keypt sér úti í búð, eins og hver önnur vörutegund sem eigi að lúta markaðslögmálum með framboð og eftirspurn og verðmyndun o.s.frv. Mér finnst kannski vanta ákveðna íhugun um eðli mála og eðli lagasetningar og það sem vakti fyrir löggjafanum á sínum tíma, að menn rifji upp þau rök. Ég vil halda því sérstaklega til haga varðandi sjálfstæðar ríkisstofnanir að ég held að löggjafinn hafi nákvæmlega vitað hvað hann var að gera þar og hafi haft mjög ákveðnar hugmyndir um hlutverk þessara stofnana inni í stjórnkerfinu. Ég óttast að ef við samþykkjum svona breytingar eins og hjá Húsnæðisstofnun, þá verði ekkert aftur snúið og við sjáum þetta gerast í æ ríkara mæli. Við sjáum þetta gerast með fleiri stofnanir og ég er ansi hrædd um að þær séu að verða mjög fáar eftir. Tryggingastofnun, sem er sjálfstæð ríkisstofnun, er ein eftir af þeim sem eftir eru en þá gerist það að til þess að tengja slíka stofnun betur ráðuneytinu, til þess að koma henni betur undir ráðuneytið, þá er deildarstjóri í ráðuneytinu skipaður formaður stjórnar Tryggingastofnunar, embættismaður í ráðuneytinu sem er handgenginn heilbrrh. er skipaður þar yfirmaður. Það sama gerist í Þróunarsamvinnustofnun, aðstoðarmaður utanrrh. er skipaður formaður þar til þess að tengja þetta betur inn í ráðuneytið og koma ráðherravaldinu betur þar inn, þannig að þessi tilhneiging er alls staðar í ríkiskerfinu. Og ég vil vara eindregið við því að menn láti þetta gerast án þess að hugsa mjög vel um hvað þarna er á ferðinni.
    Ég get svo sem ekki haft mjög mörg orð um þetta í viðbót en ég vil ítreka það sem ég spurði um áðan. Ég bað um svör við því hvaða árekstrar hefðu komið upp á milli Húsnæðisstofnunar og ráðherra í gegnum árin sem gerðu það að verkum að ráðherra telur sig ekki geta lifað við þau lög sem eru núna og þarf að fá aukið vald yfir stofnuninni. Ég spurði um tæknideildina, um söluna þar. Ég spurði líka varðandi 8. gr., af hverju nauðsynlegt sé að Húsnæðisstofnun fái samþykki félmrh. áður en hún semji við einhverja viðskiptabanka eða aðrar fjármálastofnanir um afgreiðslu og innheimtu lána.
    Þá vil ég líka ítreka spurningu mína varðandi áfrýjunarréttinn því að ég fæ ekki betur séð en ráðherra hljóti með einhverjum hætti að koma inn sem áfrýjunaraðili þegar um einstakar lánveitingar er að ræða ef ákvörðunin um lánveitinguna er tekin í húsnæðismálastjórn. Ef húsnæðismálastjórn er ákvörðunaraðilinn um lánveitinguna, og það hefur ekki verið gert annars staðar, þá hlýtur ráðherra að vera hið æðra stjórnvald sem einstaklingar eða einstakir lántakendur geta leitað til, geta farið til og áfrýjað málum sínum til. Það er klárlega kveðið á um þetta í stjórnsýslulögum sem við höfum samþykkt hér á Alþingi alveg nýverið. Og ég vil aðeins spyrja ráðherra hvernig hún sjái það fyrir sér hvaða ákvarðanir hún telji að geti með þessum hætti komið inn á hennar borð. Sem sagt, í hvaða málum hún sjái hugsanlega fyrir sér að verði áfrýjað til hennar vegna þessa ákvæðis.
    Ég held að ég hafi þetta ekki lengra í bili. En áður en ég fer héðan úr pontunni vil ég þó ítreka það sem ég sagði hér áðan í umræðu um þingsköp að ég tel mjög mikilvægt að við ræðum hér á þinginu um þennan vanda sem fólk á við að eiga. Þessa greiðsluerfiðleika sem m.a. stafa af minnkandi kaupmætti, af atvinnuleysi og af gerbreyttum aðstæðum í samfélaginu frá því sem þær voru þegar fólk tók þessi lán. Við gætum svo sem gert það hér undir þessu máli ef menn væru ekki flestir búnir að tala sig dauða. Hærri vextir, svo að maður tali nú ekki um þau ósköp, því að þeir hafa sjaldan verið eins háir eins og undanfarið. Þetta hefur gert það að verkum að fólk hefur lent í miklum greiðsluerfiðleikum og okkur ber nákvæmlega sama skylda til þess hér í þinginu og ríkisstjórninni að taka á því eins og tekið var á valdi bankakerfisins, bankakreppunni, sem stafaði af greiðsluerfiðleikum fyrirtækja. Skuldir fyrirtækjanna sem þau lenda í þrotum með eru bara einfaldlega afskrifaðar í stórum stíl, milljörðum saman hér í bönkunum. En mér er ekki kunnugt um að þannig sé farið með lán einstalinganna sem þeir lenda í erfiðleikum með.