Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 21:01:52 (7843)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér hefur orðið þó nokkur umræða um þetta mál sem eðlilegt er. Ég hafði ekki hugsað mér að kveðja mér hljóðs aftur við þessa umræðu en ég get ekki annað sökum þess að ég var alveg undrandi á því hér áðan þegar hæstv. félmrh. var í andsvörum við menn, þá virti hæstv. ráðherra þá ekki svara. Það voru þrír hv. þm. sem spurðu ítrekað og fengu engin svör. Það er ekkert sem styrkir valdið eins og þögnin, er sagt, og ég held að það sé einmitt það sem er að gerast í þessu máli. Það er verið að styrkja valdið með þögninni. Það hefur vakið athygli okkar, sem höfum verið að vinna með þetta mál í hv. félmn., að það er aðeins einn hv. sjálfstæðismaður sem hefur treyst sér til að tala í þessu máli. Eðlilega, því þetta frv. gengur þvert á stefnu Sjálfstfl. Og hæstv. félmrh. hefur að sjálfsögðu keyrt þetta svo hart í gegnum Sjálfstfl. að þeir eru hér í sárum einhvers staðar í bakherbergjum og treysta sér ekki til þess að ræða málið.
    Það sem er mest áberandi í þessu máli er að í staðinn fyrir að það eigi að dreifa hér valdi eins og er nú stefna hæstv. ríkisstjórnar, eftir því sem maður les í hvítbókinni, þá er nú verið að færa aukið vald til ráðherra. Það hefur margsinnis komið hér fram í umræðunni og það hefur ekki verið hrakið. Það eru heldur ekki komin nein svör um það hvers vegna þarf að færa svona mikið vald, aukið vald, til hæstv. félmrh. Hvers vegna? Hæstv. félmrh. vill ekki meina að hún muni gegna starfi bankastjóra eftir að þetta frv. verði að lögum, en þannig er það einfaldlega. Eini munurinn á því og venjulegum bankastjóra er að þessu verður fjarstýrt úr félmrn. Í staðinn fyrir það að venjulegir bankastjórar sitji á sínum stól í bönkum þá fjarstýrir hæstv. félmrh. úthlutunum úr félmrn. Þetta sú mikla valddreifing sem boðuð er. Hún kemur öll úr einni átt.
    Það er margt sem stendur í hvítbókinni og sumt hefur verið lesið hér upp. Það eru komnir margir svartir blettir á þá bók og ég er alveg viss um að þeir ættu þá ósk heitasta, ríkisstjórnarflokkarnir, að hafa aldrei skrifað þau ósköp sem þar standa því að þeir hafa ekki staðið við eitt orð sem þar stendur. Það rekst allt hvað á annars horn.
    Markmið valddreifingar, stendur í hvítbókinni, er að stuðla að aukinni hagkvæmni í ríkisrekstri. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, hvað er það sem eykur hagkvæmni í ríkisrekstrinum með þessu frv.? Er það að gera sjálfstæða ríkisstofnun að ósjálfstæðri ríkisstofnun? Er það að færa vald frá stofnun til ráðherra? Er það valddreifing í raun? Það er auðvitað það sem situr í sjálfstæðismönnum og þess vegna eru þeir ekki hér í salnum að þeir treysta sér ekki til að tyggja þennan bita. Þó þeir ætli að kyngja honum, þá treysta þeir sér ekki til að tyggja hann. (Gripið fram í.) En það er nú þannig að maður tyggur ekki eftir á, hv. þm. Sturla Böðvarsson, og það væri því betra að . . .  ( Gripið fram í: Sauðkindin gerir það). Að vísu. En nú er ekki um það að ræða í þessu tilviki, hv. þm. Hér er um mannfólk og það sjálfstæðismenn að ræða. ( Gripið fram í: Ekki jórturdýr). Ekki hélt maður, en það kemur í ljós.
    Það vakti mikla athygli mína í dag þegar hæstv. félmrh. var að tala hér og reyna að klóra svolítið í bakkann og taldi að það væri nú ekki verið að færa svo mikið vald frá húsnæðisstofnun og sagði: Það er ekki verið að þurrka allt vald stofnunarinnar út. Ég læt nú vera þó ekki sé verið að þurrka allt vald stofnunarinnar út.
    Hvað er í þessu frv., hæstv. félmrh., sem er til bóta fyrir viðskiptavini stofnunarinnar? Það er málefni sem lítið hefur verið rætt hér. Hvað er það? Er það eina að geta leitað beint til ráðherra um fyrirgreiðslu? Er það eitthvað annað? Ég hef ekki heyrt rök fyrir því hér að það sé nokkur skapaður hlutur annar. Og mann undrar að það sé sótt svo mjög eftir því að fá slíkt ráðherravald sem þetta frv. felur í sér. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um væntanlegt bankastjóraefni heldur taka aðeins stjórnunarþátt frv. hvað varðar hvernig stjórnin verður skipuð, ef þetta frv. verður að lögum.
    Það hefur margsinnis komið fram að aðilar vinnumarkaðarins eru þurrkaðir út og þeir eiga hvergi að koma þarna að málum. Það hefur hingað til verið samningsatriði að ASÍ hafi þarna fulltrúa, tvo frekar en einn. Það er búið með þessu frv., ef að lögum verður, og mér skildist á hæstv. félmrh. í dag að það væri eðlilegt vegna þess að BHMR hefði gert athugasemdir við að þessir aðilar væru þarna inni. ( Félmrh.: Ég nefndi ekki BHMR.) --- Ég fæ þá betri skýringar á því hér á eftir ef það er rangt með farið hjá mér, en það voru fleiri sem skildu það þannig og það verður þá leiðrétt hér. En ég tel einmitt nauðsynlegt að aðilar vinnumarkaðarins komi þarna, þetta er kjaramál. Húsnæðismál eru kjaramál og ekki bara kjaramál heldur eru þetta félagsmál, mál sem skipta oft mestu máli fyrir einstaklingana, hvernig þessum hlutum er háttað. Að þeir verði algerlega útilokaðir þarna tel ég alrangt. Og fyrst verið er á annað borð að skoða þessi mál um breytingar í stjórninni, þá hlýtur það að verða skoðað betur en gert hefur verið að Samband ísl. sveitarfélaga fái fulltrúa inn í stjórnina. Og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa úr bréfi frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga svohljóðandi:
    ,,Ítrekuð er sú skoðun stjórnar sambandsins að sveitarfélögin fái aðild að stjórn Húsnæðisstofnunar. Í því sambandi er minnst á að þau hafi þýðingarmiklu og margþættu hlutverki að gegna í húsnæðismálum og bera mikla ábyrgð á fjárreiðum og framkvæmd félagslega íbúðakerfisins. Stjórn sambandsins telur að stjórn Húsnæðisstofnunar eigi sjálf að taka ákvarðanir um lánveitingar og skiptingu útlána milli útlánaflokka á grundvelli tillagna frá útibúum í landshlutum og telur engin rök fyrir því að auka valdsvið ráðherra hvað það varðar.`` --- Og þegar þeir eru að tala um það þarna hjá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, þá eru þeir að benda á enn og einu sinni ,, . . .  að stofnunin skal leitast við að veita landsmönnum öllum

sömu þjónustu óháð búsetu. Stjórnin telur að því markmiði verði best náð með því að stofnunin komi upp útibúum í landshlutum sem hafa fullt vald á ákvarðanatöku og afgreiðslu mála hvert á sínu svæði. Að sama skapi verði dregið úr starfsemi stofnunarinnar á aðalskrifstofunni í Reykjavík.``
    Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað sé í farvatningu hvað þetta mál varðar og hvort það sé alfarið búið að afskrifa að þetta geti orðið. Þetta eru málefni sem oft hefur borið á góma hjá landshlutasamtökunum alls staðar og væri fróðlegt að vita hvað ráðherra telur rétt í þessum efnum. Það hefur ekki komið fram í þessari umræðu.
    Svo ég snúi mér nú frá þessum stjórnskipaða þætti og taki aðeins til umfjöllunar hönnunardeildina sem er nú búið að leggja niður, en í máli hæstv. félmrh. í dag kom einmitt fram að það hafi verið haft samband við starfsmenn hönnunardeildar Húsnæðisstofnunar áður en birt var í fjárlögum að leggja skyldi stofnunina niður. Var það ekki rétt skilið hjá mér? Ég fékk nú ekki nein sérstök viðbrögð við þessari spurningu. Ég hélt, vegna þess að þögnin hefur aldeilis ríkt varðandi þær spurningar sem hingað til hefur verið spurt um, að kannski væri hægt annaðhvort að hrista höfuðið eða hneigja eftir því hvort svarið er já eða nei. En það er náttúrlega eins og ég sagði hérna áðan, að það styrkir valdið ekkert eins og þögnin og þá er um að gera að halda því prinsippi. Það er greinilega prinsipp. En svo að ég lesi nú aftur upp úr Velferð á varanlegum grunni, hvítu bókinni með svörtu blettunum, þá stendur hérna í sambandi við starfsmannamál, með leyfi forseta:
    ,,Reglur varðandi atvinnuöryggi, réttindi og skyldur starfsmanna, sem hætta hjá hinu opinbera í kjölfar einkavæðingar (alfarið eða tímabundið), verða skýrar og fjárhagslega viðunandi bæði fyrir starfsmenn og ríkissjóð.``
    Mig langar að lesa hér upp bókun frá einum fulltrúa í Húsnæðisstofnun frá 16. jan., þar sem segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Þann 21. des. sl. barst Húsnæðisstofnun bréf frá félmrn. þar sem Húsnæðisstofnun er nú þegar falið að leggja niður störf, þar á meðal á svonefndri hönnunardeild, þ.e. þjónustudeild tæknideildar. Þessi krafa er ítrekuð með bréfi dags. 4. jan.
    Það fer ekki milli mála hver telur sig hafa húsbóndavaldið í Húsnæðisstofnun því að 7. jan. fær þetta fólk uppsagnarbréf og því er tjáð að störfum þess hjá stofnuninni ljúki 1. febr. nk. Er þetta gert með vitund og vilja húsnæðismálastjórnar? Ég mótmæli því að svo sé og fullyrði að að öllu þessu var staðið á mjög óvenjulegan hátt og lítt sæmandi við þessar aðstæður.``
    Þetta er nú það álit sem alla vega þessi ákveðni fulltrúi hefur, sem bókar í Húsnæðisstofnun á fundi, hvernig staðið var að uppsögnunum. Það var sem sé gert bara einn, tveir og þrír. Það var lítill undirbúningur að þessu máli þannig að ekki var mjög mikið svigrúm sem starfsmenn hönnunardeildar fengu.
    Það eru ýmsar aðrar spurningar sem vakna þegar verið er að leggja niður deild eins og hönnunardeild. Það kann oft að vera nauðsynlegt og réttlætanlegt að skoða það en þá líka mjög vandlega. En maður hlýtur að spyrja hvað vinnst með þessum aðgerðum. Hefur þessi starfsemi verið baggi á stofnuninni gegnum árin? Fjárhagslegur hagnaður hefur verið að undanteknu árinu 1991 og árið 1989 sýndi deildin 22% hagnað. Því má heldur ekki gleyma að hönnunarstarf Húsnæðisstofnunar hefur hjálpað mörgum minni sveitarfélögum og verið til mikillar aðstoðar fyrir minni sveitarfélög. Ég er ekki að segja að minni sveitarfélög geti ekki leitað annað en það er mjög löng reynsla hjá hönnunardeild eða var mjög löng reynsla einmitt fyrir þjónustu við minni sveitarfélög og það hverfur á braut án þess að undirbúningur að því sé nánast nokkur.
    Hæstv. félmrh. sagði hér í dag að það hefði hvort sem er ekki verið nein lagastoð fyrir hönnunardeildinni þannig að þetta hefði verið hið minnsta mál að leggja hana niður. Nú er búið að hrekja það hér í umræðunni hvað eftir annað. Það var lagastoð fyrir hönnunardeildinni, fyrir tæknideildinni og hönnunardeildin er bara hluti tæknideildarinnar. Hæstv. félmrh. hefur ekki komið í andsvör varðandi það málefni þannig að eftir stendur að auðvitað voru gildandi lög um hönnunardeildina. Og þrátt fyrir það að hæstv. félmrh. telji svo vera, að það hafi ekki verið lagastoð fyrir hönnunardeildinni, þá afsakar það alls ekki þá málsmeðferð sem þetta mál hefur fengið. Og maður spyr sig hvað eftir annað, eftir að hafa verið að fjalla um þetta mál í félmn., fyrir hverja er þetta frv.? Er þetta fyrir viðskiptavini Húsnæðisstofnunar?
    Það hefur margsinnis komið fram að þetta er ekki fyrir þá t.d. sem þurfa lán vegna endurbóta húsnæðis og mér heyrist á hæstv. ráðherra að hann taki nú ekki sérlega vel undir þær brtt. sem við í minni hlutanum höfum lagt þar fram. Hér hefur verið talað um einstaklinga í miklum greiðsluerfiðleikum. Þetta frv. er ekkert fyrir þá aðila. En það er eins og margsinnis hefur komið fram kannski mest áríðandi að koma einmitt þeim til aðstoðar sem eru í verstu vandræðum vegna greiðsluerfiðleika sem eru ekki síst vegna rangrar stjórnunar í landinu, allt of hárra vaxta o.s.frv. Að ekki sé nú talað um vegna þess lélega atvinnuástands sem hér ríkir.
    En svo ég tali aftur um þögnina sem ríkir um þetta mál að það er fátt erfiðara að hrekja með rökum en þögnina. Það er kannski þess vegna að stjórnarsinnar almennt hafa ekki viljað tjá sig um þetta mál vegna þess að þeir eru rökþrota gagnvart því. Og ég held að það sé nú skýringin á því. Ég ætla ekki að tefja hér meir þessa umræðu, ég býst svo sem ekkert við að fá svör við þeim spurningum sem fyrir liggja nú frekar en endranær, hér eigi þögnin að ríkja um þetta mál.