Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 21:44:00 (7845)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þau svör sem hann gaf hér. Það kom fram ýmislegt athygisvert í þeim, m.a. að hæstv. félmrh. hefur áhyggjur af samningum við lífeyrissjóðina. Heldur nú hæstv. félmrh. að það komi betra samningaandrúmsloft í þau mál þegar er búið að ryðja fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar út úr stjórn stofnunarinnar? Það kom einnig fram að hæstv. félmrh. óttast að afnám ríkisábyrgðar á húsbréfum hækki vexti. Það óttast þeir ekki sem ætla að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög. Það rekur eitt sig á annars horn hjá þessari ríkisstjórn. Og auðvitað kom hæstv. félmrh. að kjarna málsins þegar hann var að klaga Húsnæðisstofnun hér í svari sínu. Auðvitað voru það átökin um 86-kerfið sem eru orsökin að öllu þessu brambolti hér og árekstrarnir við stofnunina um það mál. Það er auðvitað ástæðan til þess að hér er verið að keyra þetta í gegn.
    Eitt var það enn sem er mjög einkennilegt, að það þurfi ekki lagaheimild til að leggja hönnunardeildina niður en það þurfi lagaheimild til að selja eigurnar. Það er margt mjög merkilegt í þessu.