Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 21:46:07 (7846)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér hafa orðið mikil tíðindi í ræðu hæstv. félmrh. Fyrir það fyrsta upplýsir ráðherrann að það standi mjög ógæfulega um fjármögnun fyrir þetta ár. Og hvert er svar ráðherrans til lausnar á því? Það er tvennt: Að reka út úr húsnæðismálastjórn fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar. Í öðru lagi að draga meira vald til sín um málið en áður er. Og ég spyr: Hvernig leysir það fjármögnunarvandamál upp á milljarða kr.?
    En það sem mestum tíðindum sætir eru ásakanir hæstv. ráðherra í garð embættismanna og stjórnarmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins sem eru með því alvarlegasta sem ég hef heyrt frá ráðherra í garð stofnunar og embættismanna hennar sem undir ráðherrann heyrir. Ráðherrann sagði í fyrsta lagi að ráðuneytið væri hunsað og fengi ekki svar við bréfum. Í öðru lagi að ráðuneytið fengi ekki upplýsingar, m.a. um þóknanir fyrir ýmis nefndastörf og í þriðja lagi ítrekaði ráðherrann að erfiðlega gengi að fá upplýsingar og í fjórða lagi kom það fram hjá ráðherra að meiri hluti húsnæðismálastjórnar sem tók ákvörðun um að selja eigur hönnunardeildar hefði að mati ráðuneytisins ekki haft lagaheimild til þess. Ráðherrann er að segja að meiri hluti stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins hafi brotið lög. Þetta eru svo alvarlegar ásakanir, virðulegi forseti, að ég hlýt að gera kröfur til þess að umræðu verði frestað og málið nú þegar tekið fyrir í félmn. sem afli upplýsinga og gefi mönnum færi á að svara fyrir þessar ásakanir.