Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 21:59:38 (7854)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst menn teygja sig býsna langt í því að leggja út af orðum mínum hér áðan í minni ræðu. Það hefur mjög verið gengið á mig hér í þessari umræðu að ræða það sem hefur borið á milli félmrn. og Húsnæðisstofnunar og ég fór yfir atriði eins og stefnumörkun og varla er það ástæða til þess að kalla félmn. saman. Ég fór yfir ágreining eins og vaxtabreytingar. Það er vitað að það hefur verið. Ég fór yfir það sem stóð t.d. í úttekt hjá Hagsýslunni að yfirstjórn stofnunarinnar kallaði á auknar gjaldtökur í stað beinna framlaga. Það stendur í þeirri skýrslu. Ekki eru það ásakanir af minni hálfu, þetta er bara staðreynd sem þar stendur. Og ég sagði að þegar Húsnæðisstofnun hefði farið í sínar gjaldtökur þá hefur það iðulega komið fyrir að við höfum ekki haft vitneskju um það. Það liggur fyrir, það lá fyrir í umræðunni þegar ég ræddi þessi mál við hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, þannig að það er ekkert neitt nýtt í því.
    Varðandi sölu á eignum Húsnæðisstofnunar þá hefur það legið fyrir að þessar eignir hafa verið seldar og hv. þm. sem er stjórnarmaður í húsnæðismálastjórn hefur auðvitað mátt vita það. Það hefur legið fyrir að þær voru fyrir nokkru seldar. Umræðan snýst um það ákvæði sem er í frv. þar sem lögfræðingar töldu að það þyrfti lagaheimild til þess að selja eigur stofnunarinnar. Ég vísa því alfarið á bug að þetta frv. sé flutt út af trúnaðarbresti milli mín og yfirmanna stofnunarinnar og tel mig hafa ítrekað það aftur og aftur í umræðunni af hverju þetta frv. var flutt sem má rekja alla leið til 1988 þegar Ríkisendurskoðun óskaði eftir því að stjórnsýsluleg staða Húsnæðisstofnunar yrði tryggð betur heldur en gert var, hún væri mjög óljós og þyrfti að fá skýrari lagaákvæði þar um. Þannig að ég tel að ekkert sem fram hefur komið í mínu máli kalli á þau hörðu viðbrögð sem fram hafa sérstaklega komið frá hv. 5. þm. Vestf.