Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 22:12:31 (7861)

     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég kvaddi mér hér hljóðs fyrir nokkru þar sem ég taldi langt frá því að komið hefði fram í svörum hæstv. ráðherra, reyndar í fyrsta svari ráðherrans sem hún bar hér fram fyrr í dag, svör við þeim spurningum sem ég hafði sérstaklega varðandi þetta frv. sem að mínu mati höfðu ekki komið fram fyrr í umræðunni. Ég hlýddi á, að því er ég held, á alla 1. umr. málsins og sérstaklega ráðherrann og gat ég ekki séð á ræðu hennar þá né heldur síðar í umræðunni hvaða ástæður væru fyrir því að hún teldi nauðsynlegt að gera þær breytingar á stjórnskipulegri stöðu Húsnæðisstofnunar sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Það var kannski ekki fyrr en núna síðast og þá sérstaklega í síðustu svörum ráðherrans og umræðum um þingsköp sem koma fram raunverulegar ástæður. Mér þykir mjög alvarlegt það sem kom fram í ræðu ráðherrans og tel raunar mjög eðlilegt að þeir sem sæti eiga í hv. félmn. óski eftir því að fá málið aftur til athugunar og þá sérstaklega það sem hér kom fram. Mér þykir það mjög alvarlegt ef rétt er að Húsnæðisstofnun, þá væntanlega bæði stjórn eða forstjóri, hafi neitað ráðuneytinu um svör. Mér þykir þetta alveg með ólíkindum. Ég verð að viðurkenna það að þetta kemur mér mjög á óvart og tel auðvitað þetta alls ekki ganga, þetta er auðvitað hreint og klárt lögbrot.
    Ég veit ekki betur en það hafi ætíð verið lögð áhersla á það af hálfu húsnæðismálastjórnar að gefa allar þær upplýsingar, bæði til Alþingis og til ráðuneytisins sem beðið hefur verið um. Ég átti sæti í húsnæðismálastjórn í þrjú ár, fyrir einum sex árum síðan, og mér þykir þetta mjög alvarlegt sem ég heyri hér úr munni ráðherrans.
    Ráðherrann taldi einnig að það hefði komið upp ágreiningur milli húsnæðismálastjórnar og ráðuneytisins varðandi vaxtaákvarðanir. Ég man ekki betur en að það sé þannig í lögum að húsnæðismálastjórn komi einungis með tillögur til ríkisstjórnar um vaxtaákvarðanir, það sé ekki í höndum húsnæðismálastjórnar að ákvarða vexti, heldur einungis að koma með tillögur þannig að ég átta mig ekki á af hverju þetta er deilumál. Ég þyrfti að fá betri skýringar á af hverju það er, hvort það er einhver misskilningur af minni hálfu varðandi þennan ágreining milli ráðuneytisins og húsnæðismálastjórnar því ég veit ekki betur en það sé í höndum ríkisstjórnarinnar að ákveða vexti en ekki í höndum húsnæðismálastjórnar. Þetta er þá bara misskilningur af minni hálfu en þetta getur ráðherrann sjálfsagt upplýst.
    En ég lýsi því aftur yfir að mér þykja þetta mjög alvarlegar ásakanir sem hér eru bornar á Húsnæðisstofnun og húsnæðismálastjórn að hún skuli --- ég man ekki betur en ráðherrann segði neitað um upplýsingar um ákveðin mál og að mjög væri tregt um upplýsingastreymi til ráðuneytisins.
    Varðandi gjaldtöku sem var nefnd hér og ráðherrann taldi að væri mjög óheppilegt að húsnæðismálastjórn skyldi hafa ákvarðað þá er það að mínu mati hvorki heimilt fyrir ráðuneytið né heldur húsnæðismálastjórn að ákvarða gjaldtöku án heimilda Alþingis. Ég tel að það þurfi heimild í lögum til þess að húsnæðismálastjórn geti ákvarðað gjaldtöku. Það er auðvitað ámælisvert ef það hefur verið gert en það þarf ekki að breyta stjórnskipulegri stöðu stofnunarinnar þó að það séu gefin ákveðin fyrirmæli í lögum. Ég tel að það sem hér kom fram af hálfu ráðherrans alls ekki nægjanlegar skýringar á því af hverju ástæða er til að breyta stjórnskipulegri stöðu Húsnæðisstofnunar og færa hana í það horf sem hér er gert ráð fyrir, þ.e. til mikillar miðstýringar að mínu mati.
    Það sem mér þótti einna merkilegast við það sem ráðherrann sagði var að það hefði orðið ágreiningur milli Húsnæðisstofnunar og ráðuneytisins varðandi 86-kerfið og húsbréfakerfið. Ég veit ekki betur en það sé ákvarðað hér á Alþingi með hvaða hætti þessum málum skuli skipað og það geti ekki orðið neinn ágreiningur milli ráðuneytisins og húsnæðismálastjórnar hvort taka á upp húsbréfakerfi eða hvort á að halda áfram með 86-kerfið. Það er Alþingis að ákveða með hvaða hætti þetta skuli vera. Ég man ekki betur en það hafi fyrst og fremst verið ágreiningur á Alþingi um þetta mál og það skiptir í raun og veru ekki neinu máli hvaða skoðun einstakir meðlimir húsnæðismálastjórnar hafa á þessu máli. Ef lagafyrirmælin eru skýr þá þarf ekki að vera að vasast neitt meira með það eða hafa sérstakar áhyggjur af því hvernig húsnæðismálastjórn starfar ef hún starfar samkvæmt lögum. Það þarf ekki nákvæmlega að tilgreina hvernig hún starfar í smáatriðum ef stjórnin fer að lögum. Það er hins vegar mjög alvarlegt og ég endurtek það ef það er staðreynd málsins að húsnæðismálastjórn fer ekki að lögum eins og mér fannst ráðherrann segja áðan.
    Það sem ég vildi fyrst og fremst leggja áherslu á er það sem kemur fram í ræðu ráðherrans frá 11. des. 1992 þar sem ráðherrann segir m.a., með leyfi forseta, orðrétt: ,,Umrædd breyting fæli í sér að Húsnæðisstofnun mundi starfa í samræmi við þá stefnu sem mörkuð var af ríkisstjórn og Alþingi á hverjum tíma en ekki eins og nú er samkvæmt stefnu húsnæðismálastjórnar.`` Þetta atriði átti ég ákaflega erfitt með að skilja og skil reyndar ómögulega því húsnæðismálastjórn starfar ekki samkvæmt sinni eigin stefnu heldur starfar hún samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru. Það gilti á þeim tíma sem ég sat í húsnæðismálastjórn, þessi þrjú ár sem ég sat þar og það kemur mér mjög á óvart að ráðherrann skuli halda því fram að húsnæðismálastjórn starfi samkvæmt einhverju öðru en gildandi lögum. Ég vildi þess vegna spyrja sérstaklega að því hvað ráðherrann á við með: ,,Ekki eins og nú er samkvæmt stefnu húsnæðismálastjórnar.`` Starfar húsnæðismálastjórn núna virkilega ekki samkvæmt þeim lögum sem gilda í húsnæðismálum eða starfar hún samkvæmt einhverju öðru kerfi, einhverju öðru heldur en gildandi lögum? Ég tel ekki að félmrh. eða félmrn. geti ákvarðað stefnuna í húsnæðismálum, það er Alþingis að gera það. Þannig að ég bara botna alls ekkert í því hvað ráðherrann á við og vildi gjarnan spyrja einmitt að þessu atriði.
    Ég tel líka 2. gr. frv. mjög óeðlilega, þ.e. að ráðherra eigi að ákvarða skipulag stofnunarinnar. Að vísu stendur: ,,að fenginni tillögu húsnæðismálastjórnar`` og það má vel vera að ráðherra hugsi sér að þarna verði farið að tillögu húsnæðismálastjórnar. Ég skil ekki af hverju ráðherrann telur nauðsynlegt að þetta vald sé hjá ráðherra, þ.e. að ákveða innra skipulag stofnunarinnar og hvernig hún starfar. Ég tel mikilvægast að farið sé að lögum og það sé ekki gengið gegn lögunum eða á svig við þau, og það skipti ekki máli hvernig húsnæðismálastjórn skipar sínum innri málum, þ.e. hvernig hún deildaskiptir stofnuninni eða annað sem þarf til þess að fyllstu hagkvæmni sé gætt í störfum stofnunarinnar. Ég tel að þarna eigi ekki að vera ráðherravald. Ég tel raunar mjög mikilvægt að það sé opin heimild um það að deildaskipta stofnunum almennt, og þá er ég ekki bara að tala um Húsnæðisstofnun, og það sé á valdi stjórnar stofnunarinnar að ákvarða hvernig hún starfar en ekki að ráðherra hlutist þar til um.
    Ég hnýt um hluta af 4. gr. frv. Ég verð hins vegar að lýsa ánægju minni með þá brtt. sem félmn. hefur þó komið með á þessari grein, þ.e. að fella niður síðari hluta 3. tölul. 4. gr. því að þar segir með leyfi forseta:
    ,,Áður en lánveiting á sér stað skal leitað staðfestingar félmrh. á forsendum lánveitingar og skiptingu lánsfjár milli útlánaflokka.``
    Þessi grein er samkvæmt tillögum félmn. felld út og tel ég það mjög vel. En ég tel eðlilegt að þeir sem hér hafa talað á undan mér skuli telja að það hafi verið hugsun ráðherrans að fara út í, liggur við, einstakar lánveitingar. Það má skilja það sem hér stendur að ráðherrann telji að það eigi að vera í hlutverki ráðuneytisins að fara ofan í einstakar lánveitingar. Það getur vel verið að það sé alveg fráleitt og ráðherrann hefur sagt að það komi ekki til greina og er það vel vegna þess að ég tel að það komi alls ekki til greina. Ég tel ekki einu sinni að húsnæðismálastjórn eigi að vera að fara ofan í einstakar lánveitingar nema ef um kærumál sé að ræða. Ég tel að fara eigi eftir ákveðnum reglum og það þurfi ekki að fara yfir hverja einustu lánveitingu af stjórn stofnunarinnar heldur sé það meira og minna falið í ákveðnum reglum sem fólk geti gengið að og þá þurfi ekki að vera að fara ofan í nema kæruatriði eða einhver vafaatriðin.
    Í 2. tölul. 4. gr. er talað um að húsnæðismálastjórn eigi að gera tillögu til ráðherra, það er eitt af verkefnum stofnunarinnar, um fjárhagsáætlun þar sem kemur fram sundurliðun. Það sem ég hnýt aðallega um er skipting á milli útlánaflokka byggingarsjóðanna og meginsjónarmið og ráðstöfun þess. Ég tel eðlilegt að húsnæðismálastjórn geri grein fyrir þessu en ég velti fyrir mér hvort þarna sé um að ræða skiptingu t.d. milli Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, sem sagt milli þessara tveggja stóru bálka. Vegna þess að hingað til hefur Alþingi skipt þessu, hvorki húsnæðismálastjórn né neinn annar, Alþingi hefur gert það og þá vildi ég gjarnan fá nánari útskýringu á því hvað er þarna á ferðinni. Að vísu skýrði ráðherrann það að einhverju leyti áðan en mér fannst ekki alveg nógu skýrt í hverju þessi tillaga fælist. Ég spyr vegna þess að þegar ég kom að þessum málum á sínum tíma, þá fór heilmikill tími í það

að skipta t.d. fé Byggingarsjóðs verkamanna, sem var þó ákvarðað af Alþingi, í félagslegar íbúðir á ákveðnum svæðum. Það fór eftir umsóknum, það fór eftir könnunum á þörf og ýmislegu fleiru. Ég velti því fyrir mér hvort félmrh. vilji hafa þar hönd í bagga og telji eðlilegt að það sé í höndum ráðuneytisins að breyta tillögum húsnæðismálastjórnar eða hvað er það í raun og veru sem þarna er verið að tala um? Er verið að tala um þessa grófu flokkun eða er verið að fara ofan í saumana á þessu niður í smáatriði? Þetta finnst mér skipta mjög miklu máli fyrir fólk sem vinnur að þessum málum, alla vega miðað við það sem ég þekki til. Nú hef ég ekki kynnt mér það sérstaklega undanfarið hvernig þessum málum er fyrir komið en ég geri ráð fyrir því að vinnubrögðin séu svipuð og þau voru á sínum tíma. Þetta eru mál sem mér finnst ekki vera ljóst hvernig ráðherrann hugsar sér verkefnaskiptingu milli húsnæðismálastjórnar og ráðuneytis ef þetta frv. verður að lögum óbreytt. En ég vil aftur lýsa því yfir að ég tel að félmn. hafi aðeins lagað þessa grein. Ég lít svo á að þarna hafi orðið nokkur breyting til batnaðar.
    Ég var og hef lengi verið þeirrar skoðunar að ekki eigi að starfa hönnunardeild innan Húsnæðisstofnunar ríkisins. Ég viðraði oft þá hugmynd á sínum tíma þegar ég var í stjórn Húsnæðisstofnunar sem ekki hlaut þá stuðning. Ég lýsi stuðningi við það ákvæði þessa frv., þó að ég telji mjög óeðlilega að þessum málum staðið. Ég tel mjög óeðlilegt að það skuli vera farið þannig að málum að fyrst skuli vera framkvæmdar, t.d. eins og í þessu tilviki, aðgerðir til þess að leggja niður hönnunardeild án þess að til þess hafi verið lagaheimild. Það kom eftir því sem hér hefur verið upplýst bréf frá hæstv. ráðherra um að þetta skyldi gert. Ég tel að það sé með öllu óeðlilegt að ráðherra skuli skipta sér þannig af innri málefnum stofnunarinnar, eins og t.d. varðandi hönnunardeild, áður en ákvörðun er tekin um það hér á Alþingi. En ég vil aftur segja það að ég er sammála þeirri niðurstöðu sem þarna fékkst og mér sýnist að allir séu sammála því hér á Alþingi að þetta skuli gert. En vinnubrögðin eru ámælisverð. Ég tel að það eigi alls ekki að gera það eins og reyndar hefur gerst áður, ekki bara af hálfu félmrh. heldur af hálfu annarra ráðherra, að fyrst eru stofnanir lagðar niður og síðan er komið til Alþingis og leitað heimilda hvort að svo megi gera.
    Varðandi sölu á eignum þá upplýsir ráðherra hér að stofnunin hafi verið að selja eignir sínar án lagaheimildar. Ég tel jafnámælisvert að það skuli vera gert hver sem tekur ákvörðun um það og tel ég það vera langt frá því að vera leyfilegt, en ég vil benda á að það hefur verið gert hér áður. T.d. hafa eignir Menningarsjóðs verið seldar. Það er búið að selja Bókaútgáfu Menningarsjóðs án lagaheimildar. Það er ekki enn búið að --- ekki einu sinni komið fram frv. --- jú, það er komið fram frv. en það er ekki komið frá nefnd um það mál. Ég býst því við að hæstv. ráðherra komi hér fram og gagnrýni þá ráðstöfun á sama hátt og hún gerði hér áðan að verið sé að selja eigur stofnunar ríkisins án lagaheimildar. En ég tek það samt fram enn og aftur að ég tel þetta vera skynsamlega ráðstöfun í heild.
    Það sama gildir um skyldusparnaðinn. Ég verð líka að segja það hér að á sínum tíma þegar ég sat í húsnæðismálastjórn, þá taldi ég eðlilegt að hætta að skylda ungt fólk til að spara með þessum hætti þar sem augljóst var að það hafði engan ávinning af því. Það fékk enga sérstaka fyrirgreiðslu hjá Húsnæðisstofnun eins og var í upphafi þegar skyldusparnaði var komið á, þannig að ég vil einnig lýsa stuðningi við þann þátt þessa máls.
    Mér kom nokkuð á óvart að hæstv. ráðherra skyldi ekki styðja eða lýsa a.m.k. einhverju jákvæðu yfir varðandi tillögu minni hluta félmn. um kaupleiguíbúðirnar. Ég hélt satt að segja, miðað við það sem hér hefur verið rætt á fyrri þingum, að það væri hæstv. ráðherra mikið kappsmál að það kerfi myndi ganga vel. Staðreyndin er sú að það hafa tiltölulega fáir notfært sér það kerfi. Það hefði nú kannski verið eðlilegt að ráðherranum, miðað við það sem hér hefur hefur verið sagt af hennar hálfu, væri kappsmál að auðvelda fólki að komast inn í það kerfi. Fyrr í dag upplýsti ráðherrann að margir þeirra sem hefðu komið til ráðuneytisins í erfiðleikum sínum skorti upplýsingar um kerfið og það þyrfti að segja fólki að 20% lánið, sem er greitt á fyrstu fimm árunum, að eftir að það lán er greitt upp þá minnki greiðslubyrðin. Mér fannst mjög merkilegt að það þyrfti að segja fólki svo augljósar staðreyndir þegar það tekur lán til fimm ára, að þegar það er búið að borga upp lánið, þá minnki greiðslubyrðin. Ég held að það þurfi ekkert sérstakt kerfi til þess að upplýsa fólk um þetta. Ég átta mig eiginlega ekki á hvernig ráðherrann hugsar sér þetta, að það sé reiknað með því að þeir sem taka lán hjá Húsnæðisstofnun geri sér ekki minnstu grein fyrir því hvað í því felst að taka lán. Þá held ég að það sé nú ákaflega erfitt að halda þessu kerfi áfram, húsbréfakerfi, með það í huga að reyna að hjálpa fólki við að gera alls konar áætlanir og greiðsluáætlanir og gera því grein fyrir hvað í lánunum felst ef það áttar sig ekki einu sinni á svo einföldum staðreyndum að þegar búið er að greiða upp lán þá minnki greiðslubyrðin.
    Ég ætlaði ekki, herra forseti, að gera fleiri atriði að umtalsefni. Það er svo margt sem er búið að koma hér fram sem ég ætlaði mér að minnast á. Almennt vil ég segja það að ég skil ekkert í því að þeir sem tala um valddreifingu og vilja minnka miðstýringu skuli virkilega geta staðið að þessu frv. Ég hefði talið eðlilegt á þessum tímum að áhersla hefði verið lögð á að leggja niður hönnunardeild, leggja niður skyldusparnaðinn og gera einhverjar þær breytingar sem hér væri samstaða um. Það hefði verið sjálfsagt að hnykkja á skyldum húsnæðismálastjórnar, upplýsingaskyldunni, ef talin væri þörf á því. Ég tel bara að ljóst sé miðað við núverandi stjórnskipun að það sé skylda húsnæðismálastjórnar að gefa upplýsingar og ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram hjá öðrum að auðvitað er mjög ámælisvert og þarf að taka sérstaklega á því ef stofnunin neitar ráðuneytum eða Alþingi eða almenningi um upplýsingar. Ég tel að það sé mjög ámælisvert. Ég verð að viðurkenna að það kom mér ekkert mjög á óvart að ráðherra Alþfl. skyldi

koma hér fram með slíkt miðstýrt frv. miðað við það sem Alþfl. hefur gert núna á undanförnum árum. Hvert frv. af öðru kemur fram þar sem krafist er aukinnar miðstýringar og því miður hefur meiri hluti Alþingis oft fallist á það. Ég hélt í einfeldni minni að Sjálfstfl. hefði aðra stefnu en það er líklega bara misskilningur af minni hálfu að þeir hafi einhverjar hugsanir um valddreifingu og minni miðstýringu. Mér sýnist á öllu að þeir styðji þetta frv. heils hugar. Það hefði verið afskaplega einfalt að koma á breytingum á Húsnæðisstofnun og þessu kerfi sem allir hefðu getað sæst á en á það miðstýringarkerfi sem hérna er gert ráð fyrir get ég alls ekki fallist.