Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 22:37:06 (7862)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil ekki láta það eftir liggja eftir þessa ræðu að ég sé mótfallin því að rýmka kjör til almennra kaupleiguíbúða eins og mér fannst liggja í orðum hv. þm. Ég tel brýnt að þetta mál sé skoðað betur þannig að við skoðum hvernig og hvort við höfum fjárhagslegt svigrúm til þess að rýmka lánveitingar. Það er ýmislegt annað sem er brýnt að gera eins og greiðsluerfiðleikamál sem hefur komið hér til umræðu og varðandi viðhald á félagslegu húsnæði og við þurfum auðvitað að athuga hvort við höfum til þess svigrúm.
    Varðandi tvö önnur atriði sem komu ítrekað fram í máli hv. þm., hún notaði orðið að eignir hönnunardeildar hefðu verið seldar án lagaheimildar. Það sem ég vakti athygli á er að lögfræðingar sem frv. sömdu töldu sérstaka ástæðu til að hafa þetta með og kemur fram í ákvæði til bráðabirgða að heimild þess efnis sé ekki að finna í 6. gr. fjárlaga ársins 1993 og því nauðsynlegt að lögfesta það hér. Hins vegar er gert ráð fyrir því í athugasemd fjárlaganna að eigur hönnunardeildar Húsnæðisstofnunar verði seldar og það kom fram í athugasemdum fjárlaga, en það var talið skýrara að hafa þetta í þessu frv.
    Varðandi líka annað sem hún nefndi ítrekað að ég hefði sagt að Húsnæðisstofnun neitaði að gefa upplýsingar. Ég taldi fyrst og fremst og sagði það hér áðan að það hefði gengið erfiðlega í sumum tilvikum að fá upplýsingar og þá er ég fyrst og fremst að vitna til þess þegar Hagsýslan og félmrn. og Húsnæðisstofnun unnu að því hvernig væri hægt að framkvæma þennan sparnað sem fyrirhugaður var á fjárlögum. Þá gekk oft og tíðum erfiðlega að ná fram umræddum upplýsingum og var það vegna þess að menn lögðu misjafnt mat á það, þ.e. annars vegar Húsnæðisstofnun og hins vegar þessi nefnd hvaða upplýsingar væru nauðsynlegar til þess að geta lagt mat á þennan fyrirhugaða sparnað.