Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 22:39:46 (7863)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Ég heyrði ekki betur áðan en í sumum tilvikum hefði ekki verið hægt að fá upplýsingar og það hefði gengið treglega með flestar eða mikið af upplýsingum sem beðið var um frá Húsnæðisstofnun. Ég biðst afsökunar ef ráðherrann hefur ekki sagt að það hefði ekki verið hægt að fá upplýsingar. Ég tók það þannig að það hefði verið neitað um ákveðnar upplýsingar varðandi einhver nefndastörf eða eitthvað þess háttar sem ég skal ekkert vera að elta ólar við. En ég vil taka það fram að ég tel það jafnalvarlegt, hvort sem það gengur treglega eða að ekki eru gefnar upplýsingar. Ég tel að það sé skylda stofnana að gefa upplýsingar og auðvitað eigi að taka á því en ekki að breyta öllu kerfinu bara til þess að pína Húsnæðisstofnun til þess að gefa upplýsingar. Ég skil ekki að það gangi nokkuð betur þó að þetta atriði breytist.
    Ég tel að fjárlög geti ekki heimilað að selja eignir þó að það standi einhvers staðar í greinargerð með fjárlögum, þá er það engin lagaheimild. Ég vil taka það fram að ég tel eðlilegt að afla heimilda eins og hér er gert ráð fyrir í frv. Það hefði bara þurft að gera það áður en eignirnar voru seldar.
    Hæstv. ráðherra sagði að skoða þyrfti betur ýmislegt varðandi kaupleiguíbúðirnar og félagslega kerfið og fleira nefndi hún e.t.v. Það er alveg rétt, ég tel það mjög mikilvægt. En það er ýmislegt fleira sem hefði þurft að skoða betur og ég held að það hefði verið eðlilegra að skoða allt betur, bæði stjórnsýslulega stöðu ef það hefði verið talið nauðsynlegt sem og kaupleiguíbúðir og félagslega húsnæðislánakerfið. Ekki vera að grauta saman eins og hér er gert stjórnsýslulegri stöðu Húsnæðisstofnunar og síðan skyldusparnaðinum og leggja niður hönnunardeild og ýmislegt fleira. Það hefði einmitt þurft að skoða þessa þætti miklu betur en ekki taka þetta með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.