Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 23:06:23 (7866)


     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin og sérstaklega það að mér fannst hún taka vel í það að skoða nánar síðasta málslið 6. gr. Ég teldi rétt að setja þak á þessa gjaldheimtuheimild. Það er örugglega alveg rétt hjá henni að þetta er svo sem staðreynd að því er varðar þjónustu tæknideildar en þar hefur verið gert ráð fyrir því að þetta ætti að vera til að standa undir tilteknum kostnaði en hérna er

verið að safna saman ýmsu, þ.e. lántökugjöldum, tæknilegri þjónustu og gjöldum vegna innheimtu á lánum stofnunarinnar sem eru í vanskilum. Og þessi innheimtukostnaður getur verið gríðarlega mikill. Segjum að þessi lán fari inn í venjulegan lögfræðiinnheimtufarveg. Segjum að það gerðist. Ég er ekki að tala um að það sé meiningin. Þá hleður þetta upp á sig undir eins og er þá meiningin að þessi grein standi undir því að heimila gjaldtöku fyrir öllum þeim kostnaði? Segjum að um stórkostleg vanskil væri að ræða, þá sjá það náttúrlega allir í hendi sér að það er óeðlilegt að nota þessa grein til þess að innheimta allan þann kostnað sem þar um ræðir þannig að ég skora á hæstv. ráðherra að láta endurskoða þetta mál milli 2. og 3. umr.
    Hitt stendur auðvitað eftir að það liggur fyrir að færri íbúðir eru fullgerðar á síðasta ári en nokkru sinni á 26 ára tíambili en ég bið ráðherrann afsökunar á því að það er hugsanlegt að einu sinni á þessu tímabili hafi verið byrjað á færri íbúðum, þ.e. á árinu 1986 þegar talan var 1.069 íbúðir en á árinu 1992 gæti þetta sleikst upp í 1.050--1.100 íbúðir þannig að það er svo sem bitamunur en ekki fjár, en það er stórkostleg breyting á byggingarstarfseminni í landinu sem þessar tölur endurspegla.