Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 15:32:42 (7893)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. 4. þm. Austurl. að ég sagði frá því á þinginu í haust að unnið væri að gerð lagafrumvarpa um eignarhald á auðlindum í jörðu, þar á meðal jarðvarma, og um virkjunarrétt fallvatna, einkum að því er varðar virkjunarrétt fallvatna á almenningum eða á landsvæðum sem ekki eru einkaeignarlönd. Þetta er mjög mikilvægt mál eins og ég veit að við hv. 4. þm. Austurl. erum sammála um, ekki eingöngu vegna samskipta okkar við aðrar þjóðir heldur ekki síður til þess að tryggja gott og öruggt samband milli rannsókna og virkjunarréttar á auðlindum þannig að óvissa um eignarhald tefji ekki eðlilega nýtingu þessara mikilvægu auðæfa þjóðarinnar.
    Ég hef látið semja um þetta efni frumvörp sem hafa verið lögð fram í ríkisstjórn og verið þar rædd ítarlega milli stjórnarflokkanna og af mönnum sem þeir hafa kvatt til. Ég þarf ekki að lýsa því hér í þinginu hversu mikilvægt þetta mál er og hversu vandasamt það er lögfræðilega, einkum vegna þess að réttarsaga Íslands er óvenjuleg meðal Evrópuríkja að því leyti að verulegir hlutar landsins voru ekki ótvírætt í eigu eins eða neins frá upphafi, þ.e. landnámið náði ekki til alls landsins og almenningar sem í upphafi Íslandssögunnar voru í eigu fjórðungsmanna hafa ekki fengið ótvíræðan stað í eignarréttarrófinu, ef þannig mætti að orði komast. Þetta eru mál sem mjög mikilvægt er að Alþingi sinni. Ég bendi á að það er einmitt á stefnu og starfsáætlun þeirrar ríkisstjórnar sem nú starfar að setja lög um þau atriði sem hér er um rætt, óháð samningunum um EES. Í samningunum um EES er að sjálfsögðu svigrúm til þess fram til loka árs 1995 að haga málum á þessu sviði eins og okkur hentar best því þau ákvæði samningsins sem þessi mál kynnu að snerta taka ekki gildi fyrr en um þau áramót. Ég tel það ákaflega mikilvægt eins og oft hefur komið fram að ótvíræður eignarréttur íslensku þjóðarinnar og fullveldisréttur okkar yfir náttúruauðlindum landsins verði staðfestur. Eins og kom fram áðan í svari hæstv. utanrrh. þá munu frumvörpin tvö, sem ég hef lýst og verið hafa til athugunar nú um nokkurt skeið, koma fram í haust. Það skal vel vanda sem lengi á að standa og þetta eru hvort tveggja hornsteinar landnýtingar og nýtingar auðlinda Íslands. Ég bið menn þess vegna að hafa nokkra biðlund með því að þessi frv. birtist og eins og fram hefur komið fyrr og kom m.a. fram í ræðu hv. 4. þm. Austurl., sem ég er þakklátur fyrir, þá hefur hann lýst vilja sínum til þess að styðja slík mál þegar þau koma fram í þinginu.