Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 16:40:35 (7905)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. hafði mörg orð uppi um landbúnaðarmál í tengslum við þennan samning. En honum er náttúrlega vel kunnugt um það að þessi samningur er ekki um landbúnaðarmál og fjallar ekki um þau.
    Að því er varðar tvíhliða samninga einstakra EFTA-ríkja við Evrópubandalagið um landbúnaðarmál þá er það rétt sem fram kom í máli hans að EFTA-ríkin féllust öll á það að flýta gildistöku þessara tvíhliða samninga sinna til 15. apríl. Á það reyndi ekki í verki að því er Ísland varðar vegna þess að lög um breytingar á búvörulögum sem hefðu þurft að vera komin til framkvæmda voru það ekki svo á það reyndi ekki að því er Ísland varðar. EFTA-löndunum var það að sjálfsögðu gjörsamlega útlátalaust að flýta gildistöku þessara tvíhliða samninga sinna vegna þess að í því fólst að það var engin breyting á efnisákvæðum. Þau kusu að gera þetta frekar en að standa í eilífðar þrefi um hærra gjald eða hærri greiðslur í þróunarsjóði Evrópubandalagsins, þannig að sem samningsniðurstaða út af því þrefi var þetta EFTA-ríkjunum hagstætt.
    Það var jafnframt staðfest að það var afar skynsamlegt af Alþingi Íslendinga að hraða staðfestingu á tvíhliða samningnum um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum til þess að það væri ekki opið mál fyrir spænsk stjórnvöld til að taka upp enn frekara þjark um stærri hlut að því er varðaði veiðiheimildir. Það var því enginn æðibunugangur heldur mjög hyggilega á málum haldið af hálfu Íslands.