Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 16:46:06 (7907)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :

    Virðulegi forseti. Það er aðeins eitt atriði sem ég hef hugsað mér að ræða við þessa þriðju umræðu þessa máls sem jafnframt er lokaafgreiðsla EES-málsins hér og það er það að við skulum yfir höfuð þurfa að gera breytingu á þeim texta sem við höfum verið að fjalla um meira og minna í allan vetur undir því yfirskyni að hann væri fullbúinn. Það er jafnframt eitt af þeim atriðum sem hnykkir á um það að þetta er ekki fullbúinn samningur. Það má vera að þetta verði hinn endanlegi texti, það má vera að þessi samningur verði tekinn í gildi með þessum hætti en það er svo sannarlega ekki víst eða klárt. Og brotthvarf Sviss úr þessu samningaferli er jafnframt skýr skilaboð um að það eru fleiri en almenningur á Íslandi sem geta hugsað sér Evrópusamstarf með öðrum hætti. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að núna þegar þessir miklu ólgutímar eru í Evrópu þá er miklu skynsamlegra að doka við og reyna að koma sér niður á jörðina og komast í tengsl við þann veruleika sem er í þessari álfu sem við tengjumst sterkustum böndum. Við þurfum að meta ástandið í Evrópu í ljósi alþjóðlegrar samskipta og við þurfum jafnframt að meta þetta ástand í ljósi samskiptanna við fjórða heiminn, þ.e. þjóðernisminnihluta og smáþjóðir innan Evrópu og annars staðar í heiminum.
    Ég get ekki betur séð en að reynslan frá því um áramót og þar til núna staðfesti mjög að hér er við afskaplega máttugt alþjóðlegt afl að eiga eða fjölþjóðlegt a.m.k. sem vill koma á hvað sem það kostar öflugu markaðsbandalagi í þágu stórfyrirtækja sem hafa hag af því að hafa hið frjálsa flæði þjónustu, vöru og fólks og allt þetta fjórfrelsi innan Evrópu sem mér er ekkert sérlega annt um undir þeim formerkjum sem það hefur verið kynnt. Ég er hlynnt frelsi í samskiptum þjóða en það verður þá að vera frelsi allra, það má ekki bara að vera frelsi þeirra sem hafa komið ár sinni þannig fyrir borð að þeir geti tryggt sér áhrif í viðskiptum og verslun sem ræður ferðinni innan Evrópubandalagsins og mun gera það sjálfsagt innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Ég vil taka það dæmi t.d. sem vakti töluverða athygli um síðustu helgi þegar á kreik komst bréf þar sem því var haldið fram að sá kattarþvottur sem dönsk stjórnvöld höfðu í frammi varðandi Edinborgarbókunina, um að það ætti að taka tillit til sérstöðu Danmerkur vegna Maastricht, væri í rauninni marklaust plagg. Þetta eru óneitanlega skýr skilaboð. Danmörk er í hópi smáþjóða innan Evrópubandalagsins, þjóða sem hafa átt undir högg að sækja. Þó er það þjóð sem er mun öflugri heldur en við í slíkum samskiptum. En nú á að fara að leggja Maastricht-samkomulagið enn á ný fyrir dönsku þjóðina með Edinborgaryfirlýsingunum og á sama tíma kemst það á kreik að í rauninni sé þetta bara allt í plati það sem gert var í Edinborg og til þess eins að róa Dani. Og það er kannski engin tilviljun að stuðningur við jáyrði í Danmörku hefur skroppið saman úr 75% niður í 45% og að nei-atkvæðahópurinn er um 30% en óákveðnir eru stór hópur líka og það er ekki meiri hluti. Línan er sú í Danmörku að menn eru sífellt að verða gagnrýnni á það sem er að gerast þar. Mér þykir það eðlilegt.
    Ég ber virðingu fyrir frændum okkar Dönum fyrir að hafa sýnt þó ákveðið sjálfstæði í þessu máli og ég yrði ekkert hissa þó þeir gerðu það áfram. Ég vek þá athygli á því líka að þetta hefur fært andstöðunni innan breska þingsins byr undir báða vængi. Þetta segir okkur það að því meira sem við vitum um vinnubrögðin innan Evrópubandalagsins, og þar með innan Evrópska efnahagssvæðisins, því meira sem upplýsist af því þeim mun meiri verða efasemdir bæði Evrópubandalagsríkjanna og annarra ríkja gagnvart því afli sem þarna er. Þetta eru þau skilaboð sem ég vil koma á framfæri í lokin. Þetta eru svo sannarlega ekki einu rökin sem ég hef fram að færa í þessu máli en það hefur verið hér ítarleg umræða fyrr. Þau rök eru öll í fullu gildi og ef eitthvað er hafa þau sannað gildi sitt á þeim tíma sem liðinn er síðan við tókum hina mestu umræðu um þetta mál og brotthvarf Sviss út úr þessu ferli öllu saman segir okkur að það er hægt að velja fleiri leiðir. Við stöndum frammi fyrir því núna að það er verið að bregðast við þessu og láta sem þetta þýði svo sem ekki neitt. Þetta þýði ekkert annað en að eitt ríki hafi ákveðið að snúa baki við þessu samningaferli og myndun þessa Evrópska efnahagssvæðis en auðvitað eru það skýr skilaboð. Og það þýðir ekkert að skella skuldinni á afturhaldssama Svisslendinga vegna þess einfaldlega að mjög framarlega í flokki andspyrnuhreyfingar í Sviss voru umhverfisverndarsinnar og lýðræðissinnar, það var fólk sem hefur stutt mjög ýmsar lýðræðishreyfingar innan Evrópu. Þetta er fólk sem ég tel að við eigum fulla samstöðu með og samleið með. Þetta er fólk sem vill vinna að auknu Evrópusamstarfi á öðrum grunni heldur en gert hefur verið. Því segi ég það enn og aftur: Brotthvarf Sviss þýðir ekki það að við séum að gera formlegar heldur efnislegar breytingar á þessu samstarfi og ég tel að enn sé tækifæri til að hafna því rétt eins og Svisslendingar báru gæfu til að gera.