Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 17:19:18 (7912)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir felur í raun aðeins í sér tæknilega breytingu á þegar samþykktum lögum um hið Evrópska efnahagssvæði. Engu að síður má segja að fyrir okkur þingmenn marki það lokaafgreiðslu EES-samningsins hér á þingi. Sú afstaða sem ég tók til málsins á sínum tíma stendur þó óbreytt, þ.e. ég mun ekki greiða atkvæði.
    Ég vil engu að síður nota þetta tækifæri til að koma á framfæri óánægju minni og í raun hryggð yfir því hvernig á þessu máli hefur verið haldið af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans hér á þingi. Þau vinnubrögð hafa valdið sárum hjá stórum hópi fólks sem seint munu gróa. Þessu fólki finnst að troðið hafi verið á lýðræðislegum rétti þess sem þjóðfélagsþegna til að velja sér framtíð og stöðu í heiminum.
    Í nóvember sl. felldi stjórnarmeirihlutinn á þingi þáltill. sem ég flutti ásamt öðrum fulltrúm stjórnarandstöðunnar um að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið yrði borinn undir þjóðina í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú nýverið felldi þessi sami stjórnarmeirihluti tillögu um að vísa því frv. sem nú er til afgreiðslu til ríkisstjórnarinnar, m.a. til að hún gæti notað þann tíma sem enn er til stefnu og borið málið í heild sinni undir þjóðina. Alþingi hefur brugðist verulegum hluta þjóðarinnar með því að afskrifa þjóðaratkvæðagreiðslu með þessum hætti. Það birtist m.a. í því að nú berast forseta Íslands öðru sinni áskoranir um að skrifa ekki undir lög sem varða aðildina að Evrópsku efnahagssvæði. Að þessu sinni lög sem breyta gildandi lögum um Evrópska efnahagssvæðið en koma ekki í þeirra stað. Að baki þessum áskorunum liggja einlægar skoðanir og virðingarverður baráttuvilji fjölmargra einstaklinga. Það fær þó ekki breytt þeirri staðreynd að nú þegar eru í gildi lög um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Þau lög voru samþykkt og staðfest í janúar sl.
    Á þetta vil ég leggja sérstaka áherslu hér, virðulegi forseti, vegna þess að mér finnst mjög miður ef ríkisstjórninni og Alþingi tekst að flytja kastljósið og ábyrgðina á þessu máli af sér og yfir á forseta Íslands. Alþingi og ríkisstjórn bera fulla og óskoraða pólitíska ábyrgð á inntaki og meðferð þessa máls.