Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 17:25:03 (7915)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Hér er Alþingi að ganga frá aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Þetta er að mínum dómi mikið óheillaspor. Samningurinn samræmist ekki hinni íslensku stjórnarskrá, samningurinn er í mörgum greinum Íslandi óhagstæður og að samningsgerðinni hefur af Íslands hálfu verið illa staðið, hagsmuna Íslands hefur ekki verið sómasamlega gætt og í sumum tilfellum jafnvel fórnað.
    Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur þeim alþingismönnum sem greiða þessum gerningi atkvæði sitt. Það er sögunnar að dæma þá. Ég segi nei.