Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 17:26:21 (7916)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er sannfæring mín að þessi samningur sé ekki hagfelldur okkur Íslendingum og sömuleiðis að í honum felist ekki nein frambúðarlausn á samskiptum okkar við aðrar Evrópuþjóðir. Það er óhjákvæmilegt að nota þetta síðasta tækifæri til þess að mótmæla vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Stofnað er til óþolandi réttaróvissu í landinu með því að lögfesta þennan samning án þess að gera breytingar á stjórnarskránni. Kröfu tugþúsunda Íslendinga og kröfu sameinaðrar stjórnarandstöðu um þjóðaratkvæðagreiðslu er hafnað. Þjóðin og þingið eru þverklofin í þessu máli. Þannig eru aðstæður við afgreiðslu málsins nú á lokastigi.
    Þá er einnig óhjákvæmilegt að mótmæla endurteknum rangfærslum og blekkingum talsmanna þessa samnings, sérstaklega hæstv. utanrrh. sem hefur gert sig beran að ótrúlegum málflutningi oft og tíðum í þessu sambandi. Málið er í upplausn og óvissu og í því felst ekki á nokkurn hátt sú vísan til framtíðar sem mjög nauðsynlegt hefði þó verið að hafa fyrir okkur Íslendinga á óvissutímum í þessum efnum. Ég segi nei.