Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 17:28:13 (7917)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Á þessum degi, 5. maí 1993, er verið að taka sögulega ákvörðun á Alþingi Íslendinga. Það er verið að taka ákvörðun sem hefur í för með sér eigindabreytingar á lýðveldinu Íslandi, vinnubrögðum Alþingis t.d. þar sem verið er að taka frumkvæðisréttinn og flytja hann út til annarra manna að því er varðar nýja löggjöf í landinu. Það er verið að reyna á þolrifin í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Það er verið að stíga skref sem gæti leitt til þess ásamt aukaaðildinni að Vestur-Evrópubandalaginu að ákveðnir aðilar krefjist þess fljótlega að Íslandi verði aðili að Evrópubandalaginu. Það er verið að hunsa undirskriftir tugþúsunda Íslendinga og kröfur stjórnarandstöðunnar allrar um það að efnt verði til þjóðaratkvæðis um þetta mikilvæga mál. Samt liggur það fyrir á þessari stundu að mikilvæg mál hafa ekki verið afgreidd þannig að menn hafa ekki einu sinni gætt sín í að ganga formlega og eðlilega frá hlutunum eins og því að eignarréttur þjóðarinnar á virkjunarrétti fallvatna og orku í jörð hefur ekki verið festur í lög. Hér er efnislega og formlega illa að málum staðið. Þetta er dökkur dagur í sögu íslensku þjóðarinnar. Ég segi nei.