Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 17:37:30 (7921)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er vissulega góðra gjalda vert að á þeirri stundu sem Alþingi samþykkir samninginn um Evrópskt efnahagssvæði skuli ekki fylgja með aðildarumsókn að Evrópubandalaginu. Það hefur heldur ekki legið í loftinu að slík umsókn yrði send. Sú þáltill. sem hér liggur fyrir frá utanrmn. boðar því út af fyrir sig engin ný tíðindi og sjálf tillagan er með þeim hætti að þeir sem að henni standa geta vísað til margra átta þegar lesið er í tillögutextann. Þetta kom fram þegar hæstv. utanrrh. svaraði fyrirspurnum um það hvernig hann liti á tillöguna, efni hennar. Þetta kom fram af hálfu formanns utanrmn. þegar hann svaraði hliðstæðum fyrirspurnum um málið.
    Tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið var tillaga af hálfu Alþb. á sínum tíma sem kostur í staðinn fyrir samning um Evrópskt efnahagssvæði. Ekkert slíkt er á ferðinni með þessum tillöguflutningi. Innihaldið í þessari tillögu er það, með því að reyna að lesa sem jákvæðast í málið, að fari svo að Evrópskt efnahagssvæði liðist í sundur vegna þess að þátttökuríkin gangi í Evrópubandalagið, þá, og þá fyrst, er hugmyndin að taka upp viðræður um samskipti Íslands við Evrópubandalagið, tvíhliða viðræður um samskipti Íslands við Evrópubandalagið. Á þessari stundu eru engar líkur á því að Evrópska efnahagssvæðið sé skammvinnt eða taki aðeins til fárra ára. Líkurnar hafa vaxið mjög á því að hér sé verið að tjalda meir en til einnar nætur.
    Mér finnst að með þessari tillögu, virðulegur forseti, sé Alþingi Íslendinga að klæðast í sauðargæru, þeir aðilar sem hafa verið að samþykkja hér með beinum stuðningi eða hjásetu samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. (Forseti hringir.) Og þó að við þykjumst sjá að eyrun standi út fyrir þessa sauðargæru hjá ýmsum og tvö höfuð séu á sumum sem að málinu standa, þá er það svo að ég teldi miklu farsælla að menn kæmum fram hér með skýrum hætti í sambandi við mál sem þetta. Ég ætla ekki að taka þátt í þeim grímuleik sem hafinn er með þessari tillögu, en ég ætla heldur ekki að leggja stein í götu hennar. Ég greiði ekki atkvæði.