Framhaldsskólar

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 18:03:23 (7929)

     Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður mælti hér fyrir brtt. við frv. um breyting á lögum um framhaldsskóla og ég vildi fara um það nokkrum orðum. Ég tel að í raun sé nánast enginn efnislegur ágreiningur á milli hans og meiri hluta menntmn. Fyrsti liðurinn sem hann nefndi, um að ráðherra sé heimilt ,,að ákveða að efnt skuli til`` --- við segjum að ráðherra sé heimilt ,,að efna til``, mér sýnist ekki annað en að það sé hártogun vegna þess að þarna er í raun og veru um það sama að ræða.
    Í öðru lagi þar sem hann ræddi um að tilraunin sé unnin í framhaldsskóla þá er það að sjálfsögðu svo að hún hlýtur að verða unnin í framhaldsskóla því að þetta er breyting á lögum um framhaldsskóla.
    Hvað varðar það að tilraunin verði til tveggja ára, þá er gert ráð fyrir því að það skuli vera að jafnaði ekki skilgreint til lengri tíma en tveggja ára í senn en það er að sjálfsögðu hægt að framlengja það.
    Einnig var nefnt hér að ekki væri gert ráð fyrir því að tilraunin yrði unnin í samvinnu við skólastjórnendur. Við segjum í samráði og það er nú ekki mikill munur á því.
    Hvað varðar það að fella út þessi ákvæði ,,ef nauðsyn krefur`` þá er hér verið að leggja til breytingu þess efnis að það verði heimilt að hefja tilraunastarf. Sú tilraun verður mjög afmörkuð og hún er til skamms tíma þannig að ég sé ekkert athugavert við það þó að þetta ákvæði sé inni.