Framhaldsskólar

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 18:13:59 (7935)

     Sigríður Jóhannesdóttir :
    Heiðraði forseti. Hér er vissulega drepið á stóru máli. Þó að tilefnið sé aðeins tilraun í prentiðnaði að mér skilst, þá kemur þetta inn á miklu stærra mál sem brennur mjög á skólafólki og öllu ungu fólki í landinu. Rannsóknir hafa leitt í ljós að það er allt að 40% af ungu fólki í dag, þegar við hefðum haldið að tækifærin væru alls staðar, sem ekki lýkur neinu prófi sem veitir starfsréttindi. Þegar maður fer að skoða þennan hóp nánar þá kemur í ljós að flestir þessir krakkar byrja í framhaldsskólum eftir grunnskóla og lenda þar í ógöngum í svokölluðum skyldugreinum eða kjarnagreinum og detta þar með út úr skólanámi. Það eru engin tilboð við þeirra hæfi. Þetta er þeim mun sérkennilegra þar sem okkur vantar menntað og þjálfað fólk á eiginlega öllum sviðum. Hér hefur verið talað í dag dálítið þröngt um iðngreinar en okkur vantar auðvitað starfsnám í fjölmörgum greinum. Okkur vantar starfsnám í verslun, okkur vantar starfsnám í skrifstofuvinnu, okkur vantar starfsnám í hótelstörfum og þannig mætti lengi telja. Ég verð að segja það að mér finnst hafa orðið svolítil bið á því að þessi mál væru tekin föstum tökum og rætt um það í alvöru að koma með tilboð í framhaldsskólanum fyrir þá krakka sem af ýmsum ástæðum, það er mjög persónubundið, hafa í bili ekki hug á lengra bóknámi, þannig að þau gætu lært í eitt eða tvö ár til einhvers starfs. Það verður hins vegar að passa mjög vel upp á það að þetta nám sé ekki lokað þannig að ef þau hafa skipt um skoðun eftir þessi tvö ár og hafa áhuga á að læra meira þá geta þau byggt ofan á þetta nám en þurfa ekki að byrja aftur alveg frá grunni.
    Það hefur verið reynt í Fjölbrautaskóla Suðurnesja að skipuleggja slíkt nám og einmitt í samstarfi við atvinnulífið. Það tókst mjög gott samstarf við atvinnurekendur suður með sjó um að skipuleggja slíkt nám en það verður að segja eins og er að þegar kom að því að ræða við forsvarsmenn iðngreinanna í landinu þá kom fyrst babb í bátinn því þarna voru þeir náttúrlega hræddir um sinn hag. Ég get kannski ekki láð þeim það, kannski var ekki farið rétt að þeim í byrjun en ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi mál verði öll rædd frá grunni og það er mjög mikil þörf á því. Hugsið ykkur t.d. ungling sem er búinn að vera eitt ár í námi á hóteli, bæði í bóklegu námi í fjölbrautarskólanum sínum og þar að auki í verklegu nokkur hundruð stundir úti á hóteli. Hann er þar undir mjög nákvæmu eftirliti, mæting, hegðun, framkoma, allt er metið. Hugsið ykkur stöðu hans eftir þetta ár til að sækja sér vinnu. Hann er með plagg upp á það að hann sé stundvís, hann sé reglusamur, hann sé elskulegur í viðmóti og áhugasamur og hafi þar að auki staðist þokkalega hinar bóklegu kröfur sem eru gerðar. Hugsið ykkur muninn á aðstöðu þessa unglings til að leita sér að vinnu og sýna þessi plögg eða vera með akkúrat ekki neitt í höndunum. Bara munurinn á aðstöðu atvinnurekanda sem er að ráða sér starfskraft og það kemur þarna einn sem er með þessi blöð og þessar umsagnir og svo hinir sem ekki hafa neitt. Það sjá allir að þetta skiptir verulegu máli. Ég tala nú ekki um núna þegar þrengt hefur mjög verulega að á vinnumarkaði og það er einkum þetta unga fólk, þetta unga reynslulausa fólk sem verður fyrir barðinu á atvinnuleysinu.
    Ég vil leggja áherslu á það að slíkt nám, hvort sem það er eitt eða tvö ár, loki ekki neinum leiðum, það verði metið þannig að þeir sem halda áfram eftir slíkt nám í venjulegu bóknámi standi ekki alveg á núlli.
    Ég skil ekki alveg í þessari tillögu um þessa tilraunastarfsemi sem á að fara að gera að það eigi að binda hana við tvö ár. Ég mundi halda að slík tilraun tæki miklu lengri tíma. Ég vil bara benda á það að mér finnst ekki rétt að hafa þessar tímatakmarkanir þarna inni og svo er annað að mér skilst reyndar að það sé komið inn í tillöguna sjálfa að þetta verði gert í samráði við skólana. Ég held að það sé algjör forsenda þess að það sé hægt að gera einhverjar tilraunir í skólastarfi yfirleitt að það sé með samráði og í samvinnu við skólana. Það er alla vega niðurstaða danskra vísindamanna í kennslumálum sem hafa tekið út árangur af tilraunastarfi í skólum þar að þá fyrst hafi tilraunastarfið borið árangur þegar hugmyndirnar og undirbúningurinn kom frá skólamönnum sjálfum því þá lögðu þeir sig alla fram um að láta málin ganga og þeir vissu líka best hvar skórinn kreppti og hvernig átti að haga þessari tilraun til að hún bæri árangur.