Frágangur stjórnarfrumvarpa

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 10:44:11 (7941)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 952 er ég með fyrirspurn til forsrh. um frágang stjórnarfrumvarpa og skýrslna opinberra stofnana.
    Fyrirspurnirnar eru reyndar þrjár og eru svohljóðandi:
    1. Eru starfandi málfarsráðunautar á vegum einstakra ráðuneyta og stofnana?
    2. Með hvaða hætti er reynt að tryggja að mál, sem ríkisstjórnin sendir Alþingi sem þingmál, séu skýr og hnökralaus hvað málfar og framsetningu snertir?
    3. Er með markvissum hætti reynt að tryggja að skýrslur og önnur gögn í opinberri stjórnsýslu, sem almenningi eru ætluð, séu á skýru og hnökralausu máli og að öðru leyti aðgengileg almenningi?
    Þessi fyrirspurn á sér kannski ákveðna sögu eða orsakir. Það er rétt að ég reki þær hér. Eins og þingmenn eflaust vita hefur á undanförnum árum komið fram ný skilgreining á ólæsi. Þessi skilgreining felst í því að menn eru læsir á einstök orð, þ.e. orðin sjálf, en þeir skilja ekki samhengið sem orðin standa í og geta ekki tileinkað sér þann texta sem þeir lesa. Ég upplifði það eftir að ég fór að lesa hér þingskjöl að ég væri í rauninni ólæs á tiltekið efni. Það var dálítið nýtt fyrir mér að átta mig á því. En ástæðan er sú að stundum er texti þingmála með þeim hætti að það er ekki nokkur leið að skilja hann. Bæði kemur

það stundum fyrir að í texta eru hugtök sem ekki er hægt að skilja. Ég vil nefna hér eitt dæmi. Í lögum sem hafa verið sett um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði --- ég er reyndar með hér fyrir framan mig lög frá 1989 en þau hafa verið endurflutt nánast árlega --- er í 3. gr. talað um ,,afgjaldskvaðarverðmæti`` sem er hugtak sem er held ég mjög illskiljanlegt flestu fólki og ( Gripið fram í: Óskiljanlegt.) er náttúrlega óskiljanlegt en fékkst einhvern tímann skilgreining á hér í þinginu. Það var þáv. hæstv. fjmrh. og núv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sem sagði: ,,Þetta orð mun vera ættað úr framkvæmd eignarskatts og nákvæm skilgreining á þessu orði mun vera fimmtánföld árleg lóðarleiga.`` En það segir sig náttúrlega ekki sjálft að afgjaldskvaðarverðmæti sé fimmtánföld lóðarleiga. Þetta var um hugtökin. Síðan koma setningar. Ég vil leyfa mér að lesa hérna eina sem er úr nýlegu skjali og varð raunar tilefni þessarar fyrirspurnar, en þetta er frv. til laga um heimild til að fullgilda Norðurlandasamning um almannatryggingar. Í 13. gr. þessa samnings segir --- og nú bið ég þingmenn að leggja eyrun við:
    ,,Sé fyrir hendi, við útreikning grunnlífeyris, réttur til þess að fá meðtalin framtíðarbúsetutímabil eftir lífeyrisatburð í fleiri en einu norrænu landi og skal þá í hverju einstöku landi eingöngu taka tillit til hluta framtíðarbúsetutímabilsins. Þennan hluta skal ákveða á grundvelli raunverulegs búsetutíma sem nota skal við lífeyrisútreikninginn út frá hlutfallinu milli raunverulegs búsetutíma í viðkomandi landi og samanlagðs raunverulegs búsetutíma í löndunum.``
    Þessa setningu skil ég ekki og vona ég að þingmenn virði mér það til vorkunnar. En þetta var í rauninni tilefni þess að ég lagði fram þessa fyrirspurn.