Frágangur stjórnarfrumvarpa

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 10:52:59 (7945)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka forsrh. fyrir svörin sem voru skýr og hnökralaus þó þau næðu ekki lengra en þau náðu, þ.e. að það sé kannski ekki mjög markvisst eftirlit haft með þessum hlutum sem ég held að þyrfti nú að reyna að koma á. Mér finnst það mörg dæmi hafa komið hér inn á borð okkar þingmanna að undanförnu og ég hef það oft heyrt ofan í þingmenn að þeir eru mjög ósáttir við það málfar sem er á ýmsum skjölum sem hingað koma að það sé orðið tímabært að skoða þessi mál og hvort það ætti að samræma yfirferð yfir þessi frv. með einhverjum hætti.
    Ég held að þetta sé sérstaklega mikilvægt núna og ég nefni það vegna þess að við erum sífellt að gera fleiri alþjóðasamninga. Ég nefni sérstaklega í því sambandi samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði þar sem verður sjálfsagt mun meiri þýðingarvinna heldur en verið hefur og einmitt það sem ég var að lesa hérna úr Norðurlandasamningnum er þýðing á texta sem væntanlega er skrifaður upphaflega á dönsku. Þá getur svona lagað mjög oft gerst að það er bara þýtt samkvæmt orðanna hljóðan en það er enginn skilningur á bak við það sem kemst svo á prent. Og það segir sig sjálft eins og með þetta hugtak sem ég var að nefna hér, framtíðarbúsetutímabil, hvernig getur maður fengið útreiknaðan lífeyri út frá framtíðarbúsetutímabilum? Hvernig veit hann hvar hann mun búa í framtíðinni og hversu löng tímabilin verða á hverjum stað? Þetta er bara merkingarleysa sem þarna kemst yfir.
    En ég þakka svörin og legg áherslu á að það verði með einhverjum hætti tekið á þessu. Ég er ekki frá því að það sé ágæt hugmynd eins og kom fram hér hjá 9. þm. Reykv. að það verði einn og sami aðilinn sem bæði skoði mál sem þá varða þingið og eins framkvæmdarvaldið.