Staða samkynhneigðs fólks

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 10:58:48 (7949)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 10. þm. Reykv. hefur borið fram svohljóðandi fsp.:
    1. Hverjir eiga sæti í þeirri nefnd sem samþykkt var á síðasta löggjafarþingi að fela ríkisstjórninni að skipa til að kanna stöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi?
    2. Hvað líður störfum nefndarinnar?
    Í nefndinni eiga sæti Sigurður Júlíus Grétarsson, sálfræðingur og dósent við Háskóla Íslands, en hann er jafnframt formaður nenfdarinnar, Margrét Harðardóttir, deildarsérfræðingur í menntmrn., tilnefnd af menntmrh., Ingi Valur Jóhannsson, deildarstjóri í félmrn., tilnefndur af félmrh., Guðni Baldursson viðskiptafræðingur og Guðrún Gísladóttir deildarstjóri, bæði tilnefnd af Samtökunum 78.
    Þál. um skipun nefndarinnar var samþykkt í maí 1992. En eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda dróst að skipa í þessa nefnd. Þann seinagang má rekja til þess að ráðuneytin höfðu mjög misjafnan skilning á eðli verkefna nefndarinnar og þar af leiðandi hvar bæri að vista hana. Þetta er í sjálfu sér skiljanlegt enda verður að segjast að verkefni nefndarinnar, að kanna lagalega, félagslega og menningarlega stöðu samkynhneigðra, er mjög víðfeðmt og ekki á sviði neins eins ráðuneytis. En forsrn. hefði kosið að dóms- eða félmrn. hefði skipað nefndina sem þau töldu að ekki væri rétt af þeim ástæðum sem ég áðan rakti. Því urðu lyktir málsins þær að ég ákvað að nefndin skyldi starfa á vegum forsrn. og var leitað til Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands eftir ábendingum um hæfan einstakling til að gegna formennsku í nefndinni. Nefndin var skipuð í síðasta mánuði og ég vænti góðs af störfum hennar.