Pappírsnotkun þjóðarinnar

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:02:04 (7951)

     Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram tvær fyrirspurnir til hæstv. umhvrh. um pappírsnotkun þjóðarinnar er hljóða svo:
    1. Hver er hlutur endurunnins pappírs í heildarpappírsnotkun þjóðarinnar að magni og kostnaði?
    2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir sérstökum aðgerðum sem draga úr pappírsnotkun þjóðarinnar og auka notkun endurunnins pappírs?
    Ég held að það sé samdóma álit að aukin pappírsnotkun sé verulegt áhyggjuefni. Það er alkunna að við erum að ganga á takmarkaðar birgðir skóga jarðarinnar og þar með súrefnisbirgðirnar sjálfar sem mannlífið nærist og þrífst af. Ef við horfum okkur nær hér í þingsalinn þá blasir við okkur gegndarlaus sóun á pappír. Mér verður stundum hugsað til þess að ef jarðarbúar fetuðu í fótspor Alþingis Íslendinga í sambandi við sóun og notkun á pappír þá yrði þess tæpast að vænta að líf á jörðunni mundi þrífast mjög lengi. Ég held að þetta sé stærra mál en margan býður í grun og í öðru lagi held ég að það sé þörf á því

að reyna að skapa hér vitund um að við erum að taka af takmarkaðri auðlind. Þess vegna hef ég leyft mér að bera þessar fyrirspurnir fram til hæstv. umhvrh. og vænti svara.