Pappírsnotkun þjóðarinnar

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:04:08 (7953)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Í fyrsta lagi spurði hv. fyrirspyrjandi hver væri hlutur endurunnins pappírs í heildarpappírsnotkun þjóðarinnar að magni og kostnaði.
    Því miður er ekki hægt að sjá það af tollskrám né öðrum tölulegum upplýsingum sem tiltækar eru hver hlutur endurunnins pappírs er í heildarpappírsnotkun þjóðarinnar. Um þetta má þó hafa nokkrar vísbendingar. Á árinu 1992 voru flutt til landsins 3.774,3 tonn af prent- og skrifpappír. Á sama ári er vitað að a.m.k. 500 tonn voru flutt inn af pappír sem hafði fengið norrænt umhverfismerki en sá pappír er nær allur endurunninn. Ég tel líklegt að hlutur endurunnins pappírs liggi á milli 500 og 1.000 tonna. Þetta er að sjálfsögðu ágiskun en ekki töluleg staðreynd. Þótt ekki séu tiltækar tölur um notkun á endurunnum og svokölluðum umhverfisvænum pappír þá er ljóst að notkun hans fer vaxandi hér á landi. Sem dæmi um þetta má nefna að umhvrn. veit að á síðasta ári flutti eitt fyrirtæki, sem að vísu er umsvifamikið á þessu sviði, inn 583,3 tonn af slíkum pappír. Einnig má nefna að það verður stöðugt algengara að fyrirtæki og stofnanir setji sér þá reglu að nota einungis endurunninn eða annan umhverfisvænan pappír. Ég nefni enn sem dæmi að í umhvrn. er nær eingöngu notaður endurunninn pappír. Það litla sem notað er af pappír sem unnin er úr nýju hráefni uppfyllir allar þær kröfur sem gerðar eru til þess að hljóta norræna umhverfismerkið. Á síðasta ári var svo tekin upp flokkun á pappír í umhvrn. og nýtanlegur úrgangspappír sendur til endurvinnslu. Á árinu 1992 fóru tæp 320 kg af notuðum pappír frá umhvrn. til endurvinnslu. Þetta eru vísbendingar um svör við fyrstu spurningu hv. fyrirspyrjanda.
    Síðara málið sem fyrirspyrjandi hreyfði var spurningin hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir sérstökum aðgerðum sem draga úr pappírsnotkun þjóðarinnar og auka notkun endurunnins pappírs.
    Í því sambandi vil ég nefna að á síðasta ári beitti umhvrn. sér fyrir því í samráði við landbrn. að íslenskir eggjabændur notuðu íslenska eggjabakka sem framleiddir eru úr endurunnum pappír hér á landi. Ráðuneytið hefur á ýmsum öðrum sviðum hvatt til notkunar á vörum framleiddum úr endurunnum pappír. Ég get látið þess getið hér að iðnrn. hefur líka beitt sér í þessu máli. Þar má reyndar vísa til búvörulaganna þar sem sú skylda er lögð á búvöruframleiðendur og þá sem vinna úr búvörum vegna verndarinnar sem þeir njóta að þeir noti einkum innlend aðföng. Á því hefur verið mikill misbrestur.
    Ísland er eins og kunnugt er aðili að norræna umhverfismerkinu og mun væntanlega gerast aðili að evrópsku umhverfismerki þegar það verður að veruleika. Pappír sem hlotið hefur norræna umhverfismerkið er framleiddur úr hráefni úr ræktuðum nytjaskógum og framleiðsluferlið þannig uppbyggt að mengun er haldið í lágmarki. Umhvrn. átti þátt í því að hvetja íslensk fyrirtæki til að efla innra eftirlit á sviði umhverfismála sem m.a. felur í sér reglur um pappírsnotkun og er sérstaklega að þessu vikið í stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum sem ber heitið: Á leið til sjálfbærrar þróunar.
    Nú er í ráði að hvetja önnur ráðuneyti sérstaklega og opinberar stofnanir til að auka notkun á endurunnum pappír þar sem það er mögulegt. Jafnframt er æskilegt að dregið verði úr pappírsnotkun, m.a. með samtengingu tölvukerfa. Nú er unnið að því að tengja tölvur Stjórnarráðsins saman og koma þar á tölvupóstkerfi sem gefur möguleika á pappírslausum samskiptum innan Stjórnarráðsins. Pappírslaus samskipti, m.a. í sambandi við tollafgreiðslu á varningi fara nú mjög vaxandi í viðskiptalífinu og ég bind vonir við að það geti miðað að því marki sem hv. fyrirspyrjandi hér setti fram að draga úr pappírsnotkun almennt. Ef maður svipast hér um borðin og sér þau svigna undir pappírsbunkunum þá sér maður að sú stofnun sem við erum starfandi í gæti vafalaust reynt að draga úr pappírsnotkun eins og fyrirspyrjandi nefndi í máli sínu.