Vörugjaldskrá hafna

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:30:08 (7963)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Fsp. mín er til hæstv. samgrh. um vörugjaldskrá hafna, hún er á þskj. 844 og er svohljóðandi:
    ,,Hvaða ástæður eru fyrir háu vörugjaldi til hafna á útflutningsvörum eins og mjöli og lýsi og mun lægra vörugjaldi á innflutningsvörum, svo sem olíum og bensíni, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 462 frá 22. des. 1992?``
    Í þeirri reglugerð segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Vörur skal flokka til vörugjalds eftir því sem vörugjaldskrá tiltekur og gjaldið greiðist eins og þar

segir:
    1. fl.: Gjald kr. 106,00 pr. tonn:
    Bensín, brennsluolíur, kol, laust salt, vikur og sement.
    2. fl.: Gjald kr. 221,00 pr. tonn:
    Þungavarningur, svo sem sekkjavörur, óunnið járn og stál, útgerðarvörur, smurningsolíur, sjávarafurðir, landbúnaðarafurðir, iðnaðar- og byggingavörur`` o.s.frv.
    Hér munar meira en helming eftir tegundum vöru og því er spurt: Hver eru rökin fyrir því að skipta vörum í þessa tvo flokka með meira en helmingsmun á gjaldi? Í hærra verðgjaldi eru fiskimjöl og lýsi en slíkar vörur eru fluttar út í miklu magni með mikla þyngd eins og aðrar sekkjavörur. Frystar afurðir aftur á móti koma miklu betur út úr þessu þar sem umfang og þyngd vörunnar er miklu minna miðað við það útflutningsverðmæti sem fyrir hana fæst. Dæmi: Greiðsla fyrir frystar afurðir með útflutningsverðmæti upp á á annan milljarð, 700 þús. kr. í vörugjald en útflutningsvörur eins og loðnumjöl upp á 450 millj., 5 millj. vörugjald.
    Ég er hér með útreikninga frá Félagi ísl. fiskimjölsframleiðenda sem sýna hversu geysilegur munur það væri ef mjöl og lýsi væru í gjaldskrá 1. flokki í stað 2. flokks. Flutt voru út á árinu 1992 162.548 tonn af fiskimjöli og 75.610 tonn af fiskilýsi. Miðað við 2. flokk gjaldskrár frá 22. des. 1992 þurftu útflytjendur á mjöli og lýsi að greiða tæplega 53 millj. en ef mjöl og lýsi væru í 1. flokki hefði upphæðin orðið samtals um 25 millj. Mismunurinn er upp á 27 millj. Þetta er æðimikill munur, sér í lagi þegar á það er litið að verð á loðnumjöli hefur ekki hækkað til langs tíma. En einhver rök hlýtur hæstv. samgrh. að hafa fyrir þessum mismun sem ekki liggja ljós fyrir. Þessi mismunur er ekki einungis baggi á fiskimjölsverksmiðjum á landinu heldur hlýtur þetta að koma niður á launum loðnusjómanna en laun þeirra hafa ekki hækkað til nokkurra ára. Nægjanlegt er að þurfa að búa við þá duttlunga sem loðnan sýnir þó að ekki þurfi að búa við þá órökstuddu duttlunga sem þarna kemur fram í vörugjaldi. (Forseti hringir.) Það er ekki einungis misræmi þarna heldur er mjög mikið misræmi á mili hafna, t.d. hafa Seyðisfjörður og Siglufjörður sem njóta loðnunnar miklu meiri tekjur heldur en t.d. hafnir eins og Grundarfjörður og Hellissandur.