Vörugjaldskrá hafna

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:33:54 (7964)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Með bréfi hinn 17. mars 1992 óskuðu samtök fiskvinnslustöðva eftir því að fá lækkun á gjaldskrám hafna varðandi loðnuafurðir, mjöl og lýsi. Það erindi var sent Hafnasambandi sveitarfélaga sem lagðist gegn slíkum breytingum. Þegar þessi fsp. barst nú, sendi samgrn. hana til umsagnar Hafnarsambandinu og barst bréf hinn 4. maí sl. varðandi þessa fsp. sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Gjaldskrá fyrir íslenskar hafnir er sett samkvæmt núgildandi hafnalögum, nr. 69/1984. Gjaldskrá er staðfest af samgrh. að fengnum tillögum hafnaráðs og Hafnasambands sveitarfélaga. Samkvæmt 11. gr. er lagt vörugjald á vörur sem umskipaðar eru, lestaðar eru eða losaðar í höfn. Í gjaldskrá er vörugjaldi skipt í þrjá flokka auk aflagjalds eftir tegund vöru og eðli þeirra flutninga sem um er að ræða.
    Við flokkun í 1. flokk vörugjaldskrár er miðað við vörur sem eru fluttar í miklu magni í hverjum farmi og nýta því viðlegukant í tiltölulega stuttan tíma á einingu í farmi skips. Þá er einnig í 1. flokki bensín og brennsluolía sem í mörgum tilvikum er dælt á land úr skipum sem liggja við festar á hafnarsvæðinu og nýta því ekki hafnarmannvirki að öðru leyti.
    Í 2. og 3. flokki vörugjaldskrár eru vörur sem þurfa við lestun og losun verulegt rými á hafnarbakkanum og fast viðlegupláss fyrir skip og því meiri þjónustu og afnot af hafnarmannvirkjum en þau skip sem flytja vörur sem eru í 1. flokki. Gjaldskrá hafnanna tekur tillit til eðlis flutninga en ekki þess, hvort um er að ræða útflutning eða innflutning á vörum sem fara um hafnarsvæðið. Að öðru leyti er vísað til þess að gjaldskráin hefur verið sett fyrir allar hafnir landsins. Hefur ríkt bærileg sátt um hana milli hafnarstjórna og notenda hafnanna þó jafnan megi deila um verðlagningu almennt. Þá skal þess getið að aðilar vinnumarkaðarins hafa ekki leitað eftir viðræðum um lækkun hafnargjalda frá því að fulltrúar frá Félagi fiskvinnslustöðva leituðu eftir því á síðasta ári að færa hluta sjávarafurða í 1. flokk. Þeirri ósk var hafnað af stjórn Hafnasambandsins eftir ítarlega athugun á málinu í samráði við þær hafnarstjórnir sem málið varðaði einkum.``
    Svo mörg voru þau orð. Ég hef ekki öðru við þetta að bæta en því að þessi breyting, ef úr henni yrði, mundi hafa mjög mismunandi áhrif á loðnuhafnir. Í sumum tilvikum eru tekjur vegna loðnuútflutnings verulegar og mundu skekkja fjárhagsstöðu einstakra hafna.