Afgreiðsla mála í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 13:13:23 (7987)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Í gær bárust þær fréttir af afgreiðslu mála hér í nefndum að það hefði verið fellt að taka 16. mál þingsins út úr sjútvn., að stjórnarliðar í sjútvn. hafi komið í veg fyrir að 16. mál þingsins, sem er þingmannamál, fengi þinglega meðferð. Mér er kunnugt um það og sat sjálfur í félmn. einnig að þar var neitað að taka út þingmannamál þannig að það fengi þinglega meðferð. Ég spyr virðulegan forseta hvort það sé eðlilegt að skipulega sé komið í veg fyrir það hjá stjórnarliðum að mál fái þinglega meðferð með þessum hætti. Þinginu er að verða lokið. Þetta mál, sem sjútvn. var að fjalla um, fjallar um lagaheimildir til þess að úthluta aflaheimildum Hagræðingarsjóðs án endurgjalds, lagaheimildir til þess að uppfylla loforð sem hæstv. forsrh. hefur gefið. Ég spyr hæstv. forseta: Telur hann að það sé verjandi að senda þingið heim við þessar aðstæður? Á að kalla þingið saman aftur ef þarf slíkar lagaheimildir eða er hætta á að ríkisstjórnin setji bráðabirgðalög þegar þingið er farið heim?
    Ég undrast þessa málsmeðferð og einkum er það fyrsta spurningin hvort það sé líðandi að stjórnarliðið hér á Alþingi komi með skipulegum hætti í veg fyrir það að þingmannamál fái þinglega meðferð. Ég segi fyrir mig og tala áreiðanlega fyrir munn fleiri stjórnarandstæðinga: Okkur er ekkert að vanbúnaði að sitja hér áfram og afgreiða mál þannig að þess vegna þarf ekki að ganga til verka með þessum hætti.