Afgreiðsla mála í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 13:24:11 (7991)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Við þingmenn höfum fylgst með því síðustu daga að hér hafa farið fram ákveðnar samningaviðræður um frestun á þinghaldi og framgangi þingmála. Síðan gerist það í hádeginu í dag að hv. 17. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, formaður þingflokks Alþfl., kemur með afar digrar yfirlýsingar í útvarpi um þinghaldið og framhald þess og segir m.a. að það sé nú eingöngu í nösunum á stjórnarandstæðingum að vilja vinna hér að framgangi mála. Það sé allur vindur úr stjórnarandstöðunni. Þetta var efnislega, ég hlustaði á þessa frétt. Hann tók það sérstaklega fram að nú væri að koma vor og framsóknarmenn þyrftu að fara heim að sinna búfé sínu, það væri kominn sauðburður.
    Nú er það svo, hv. þm., að sem betur fer er það þannig að á Alþingi situr enn fólk sem á rætur í atvinnulífi þessa lands og ég vil leyfa mér að fullyrða ( Gripið fram í: Ekki í Alþfl.) --- ég vil leyfa mér að fullyrða það af því að gripið var fram í, að það fólk er ekki í Alþfl. Í öðru lagi vil ég leyfa mér að fullyrða að það fólk hefur öðrum meiri skilning á því að brýn þörf er á því að Alþingi Íslendinga starfi þar til fundin er einhver lausn á brýnustu vandamálum íslensks atvinnulífs sem nú er að stefna í stóra strand.
    Í öðru lagi gerðist það í þessu makalausa viðtali að hv. þm. talar um það sem hræsni af hálfu stjórnarandstæðinga þegar þeir tala um að fyrir liggi einhver loforð um að aflaheimildum Hagræðingarsjóðs verði deilt út og hann tvítók orðið hræsni í því samhengi. Þetta túlka ég þannig, virðulegi forseti, að þannig sé komið stjórnarsamstarfinu að hv. þm. geri ekkert með loforð og orð hæstv. forsrh. sem margsinnis hefur lýst því yfir, síðast hér í ræðustól fyrir nokkrum dögum, að þetta verði gert. Þessu lýsti hann m.a. yfir á tröppum Stjórnarráðsins í ágúst sl. þar sem tiltekinn var sá dagur sem ætti að greiða þetta út og það meira að segja í peningum, hvar sem átti að taka þá, hv. þm.
    Að lokum, virðulegi forseti. Ef þetta er sjónarmið hv. formanns þingflokks Alþfl. þá legg ég til að forsætisnefnd komi saman og skeri niður eins og 25 mál af þeirri dagskrá sem nú liggur fyrir og við hefjum bara reglubundin og venjuleg störf við afgreiðslu þingmála.