Afgreiðsla mála í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 13:31:37 (7993)

     Guðjón Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson og Kristinn Gunnarsson hafa gert að umtalsefni meðferð ákveðins máls í félmn. Ég ætla ekki að ræða það mál efnislega en á fundi félmn. í fyrradag óskaði hv. þm. Kristinn Gunnarsson, sem er annar flm. þessa máls, eftir því að málið yrði afgreitt út úr nefndinni. Ég óskaði þá eftir því að áður en til þess kæmi yrði formaður Sambands ísl. sveitarfélaga fenginn á fund nefndarinnar til viðræðna og ég held að það sé vaninn í slíkum tilfellum að verða við því. Formaður ákvað síðan að málið yrði ekki afgreitt út á þessum fundi og í gær var boðað til aukafundar þar sem formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, mætti á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir afstöðu sinni til þessa máls og var spurður út úr. Í framhaldi af því spurði formaður hv. flm., Kristin Gunnarsson, hvort hann vildi atkvæðagreiðslu um málið. Hann óskaði ekki eftir því þannig að málið var ekki afgreitt út úr nefndinni.