Afgreiðsla mála í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 13:38:26 (7996)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með þeim sem verið hafa að gagnrýna þá ákvörðun sem tekin var í sjútvn. í gærkvöldi að það yrði ekki tekin út úr nefndinni frumvörpin um Hagræðingarsjóð sem þar lágu inni. Satt að segja verð ég að viðurkenna að ég var ákaflega undrandi á þessari ákvörðun í nefndinni. Ég tel að það sé raunar útilokað að nefnd geti tekið þá ákvörðun að mál komi ekki til umræðu í þinginu. Mér finnst það vera brot á öllum hefðum og venjum í félagsmálum að haga sér þannig. Út af fyrir sig geri ég engar athugasemdir við það þó að meiri hluti nefndarinnar hafi lagt til að málið yrði fellt og það var auðvitað það sem meiri hlutinn átti að gera úr því að hann hafði þá skoðun. Hins vegar er það bara þannig að búið er að lofa sjávarútveginum í landinu hvað eftir annað þessum --- hvað eigum við að kalla það --- verðmætum sem eru í Hagræðingarsjóði, með einhverjum hætti. Við höfum fylgst með því hvernig togast hefur verið á milli hæstv. sjútvrh. og forsrh. um málið. Sjútvrh. lagði til í upphafi að það yrði farin sú leið sem stjórnarandstaðan er að leggja til. Vel kann að vera að stjórnarflokkarnir hafi talið það heppilegra að málið kæmi ekki hér til afgreiðslu vegna þess að einhverjir mundu telja sig nauðbeygða til þess að standa við sínar skoðanir á málinu, að það eigi að úthluta þessum verðmætum til þeirra sem verst hafa farið út úr þorskskerðingunni. Í sama stað kemur að þessi aðgerð er auðvitað gersamlega óþolandi, að fellt sé á jöfnum atkvæðum í nefnd að mál komi til afgreiðslu hér í þinginu.
    En auðvitað vitum við að það er fleira sem heldur aftur af stjórnarliðum, að hér komi mál til umræðu sem tengjast sjávarútveginum. En þeir munu ekki komast undan því. Við höfum óskað eftir því að hér fari fram utandagskrárumræða. Það er búið að biðja um það fyrir tveimur dögum og ég veit ekki annað en það verði á dagskrá þingsins áður en þingið fer heim. Manni finnst sannarlega undarlegt, núna á síðustu dögum þingsins, að það virðist vera orðið stærsta mál þingsins hvenær þingmenn komist heim, það virðist vera stærsta málið. Það er það sem verið er að ræða hérna. Ég get ekki séð að það geti orðið svona stórt í augum þingmanna. Ég held að menn hljóti að geta gefið sér tíma til þess að sitja hér áfram ef von er á því að afgreiða þurfi mál sem skipta verulegu máli fyrir atvinnulífið í landinu. Ég held að það væri nær fyrir ríkisstjórnina að reyna að finna út úr þeim vandamálum sem hún hefur verið að skapa og leggja mál fyrir þingið eða lýsa því yfir að þingið verði kallað saman strax og menn hafa getað náð hugsun á þeim bæ.