Afgreiðsla mála í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 13:49:21 (8001)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég get áréttað það sem forseti sagði um góðan samstarfsvilja sem ríkt hefur fram undir þetta á fundum okkar. Mér sýnist nú ljóst af þessum umræðum og atburðum öllum að það sé ekki þingmeirihluti fyrir að samþykkja frv. um Hagræðingarsjóð og auðvitað hlýtur meiri hluti Alþingis að ráða. Mér skilst að þessi ákvörðun í sjútvn. hafi verið tekin eftir yfirvegun í þingflokkum stjórnarliðsins og þeir ákveða það að ganga milli bols og höfuðs á þessu frv. Og meiri hlutinn hlýtur að sjálfsögðu að ráða þó að við í minni hlutanum höfum náttúrlega rétt til að gagnrýna þær ákvarðanir sem teknar eru.
    En öðru máli gegnir um það þingmál sem ég nefndi hér áðan, þ.e. till. til þál. um greiðsluaðlögun fyrir fólk í verulegum greiðsluerfiðleikum. Ég leyfi mér, frú forseti, að álíta að það mál njóti meirihlutafylgis á Alþingi. Það er flutt af formanni þingflokks Alþfl. ásamt með öðrum þingmanni Alþfl. Ef ég veit rétt um starfshætti þingflokka, þá er svona mál borið upp á þingflokksfundum og þá hlýtur það að njóta a.m.k. meirihlutafylgis í Alþfl. Ég get leyft mér að fullyrða hér og nú að þetta mál nýtur stuðnings stjórnarandstöðunnar óskiptrar. Þar með er það ljóst að þetta mál hefur meirihlutafylgi hér á Alþingi. Einhverra hluta vegna hefur ekki unnist tími til að ræða það enn. Enn er ekki öll nótt úti. Ég fer fram á það að þetta mál verði tekið til umræðu hér í dag og þá skal ég beita mér fyrir því við stjórnarandstöðuna að við styttum mál okkar í umræðunum og þetta þurfi ekki að taka langan tíma. Síðan verði fyrri umræðu um málið lokið í dag og málið tekið til síðari umræðu á morgun og afgreitt frá Alþingi sem ályktun Alþingis. Ég tel að fólkið í landinu eigi heimtingu á að þessu málefni sé sinnt vegna þess að við höfum upplýsingar um það að skuldir heimilanna eru orðnar geigvænlegar. Sumt af þessu er náttúrlega af eyðslusemi og vitleysu en sumt af þessum skuldum verður til án þess að fólkið í landinu viti.
    Það er í gangi hérna lánskjaravísitala. Við höfum fyrir okkur að það hafi verið gefið út töluvert af húsbréfum. Mér skilst að á fyrstu þremur árunum sem húsbréfakerfið hefur verið í gildi, þá hafi verið gefnir út 33 milljarðar. Á nákvæmlega sama tíma hafi lánskjaravísitalan ein hækkað skuldir heimilanna um 33 milljarða. Þ.e. þetta sem kemur aftan að fólki í gegnum lánskjaravísitöluna fyrir utan vextina, það sem kemur aftan að fólkinu í landinu, er jafnmikil upphæð og útgefin húsbréf síðustu þrjú ár. Þetta er málefni sem er óhjákvæmilegt að taka á og í því skyni treysti ég að þessi þáltill. hafi verið flutt.