Afgreiðsla mála í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 14:05:34 (8008)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það sem forseti vék að í sinni ræðu um venjur og hefðir þingsins gagnvart afgreiðslu og vinnubrögðum nefnda er sumt laukrétt eins og það að stundum gerist það að flm. sjá fram á að mál verði fellt og telja þá betra að það liggi. En þingsköpunum var breytt ekki fyrir alls löngu og í þeirri breytingu var fært vald til forseta til að tryggja það að valdníðslu væri ekki beitt í nefndum. Hv. þm. Ingi Björn Albertsson spurði um áætlanirnar sem talað er um í 18. gr. þingskapa og hvort þetta mál hefði samkvæmt áætlun átt að fara út. Ég tel það dæmi um makalausa valdníðslu af formanni menntmn., makalausa valdníðslu að afgreiða þetta mál ekki út.
    Samkvæmt því sem kemur fram seinna í þingsköpunum, þá er það skýrt tekið fram með vald forseta að hann hefur eftirlitsskylduna með störfum þingnefnda og það er ekki nema ein lausn þegar svona mál koma upp eins og hér var nefnt hjá hv. þm. Inga Birni Albertssyni. Það er ekki nema ein lausn. Annaðhvort verður að kalla málið úr nefnd án þess að fundur verði haldinn og það verði greitt atkvæði um það hér í þinginu eða formaður nefndarinnar boðar til fundar. Það er ekki nema tvennt til. Það er ekki verjandi að einhverjir aðilar ætli með ofbeldi fámennis í nefndum að koma í veg fyrir það að Alþingi Íslendinga taki afstöðu.
    Hv. þm. Svavar Gestsson gat hér um ræður sem fluttar voru í menntmn. Ég hef ekki haft þann sið að flytja þær hingað inn, en það gæti verið fróðlegt fyrir þingheim og þjóðina að sumar þeirra yrðu fluttar hér úr þessum stól og það er þá eðlilegt að það verði gert.