Afgreiðsla mála í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 14:08:27 (8009)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins örstutt í framhaldi af ræðu hv. 5. þm. Vesturl. Hann upplýsti í fyrri ræðu sinni að formaður félmn. hefði ákveðið að málið yrði ekki tekið út á þeim fundi. Á þeim fundi lá fyrir tillaga sem ég lagði fram um afgreiðslu málsins og sú tillaga var aldrei borin upp eins og ber samkvæmt venjulegum fundarsköpum. Á síðari fundinum sem haldinn var í gærkvöld var tillaga mín ekki borin upp, heldur lagði formaður nefndarinnar til aðra tillögu sem var sú að málið yrði ekki afgreitt. Um það var spurt hvort ég vildi atkvæðagreiðslu og svar mitt var einfalt, að formaðurinn hefði sagt á fyrri fundinum og úrskurðað að mál færu ekki út nema með hennar samþykki. Það hlyti að standa af hálfu meiri hlutans.
    Nú hefur forseti með ótvíræðum hætti bent mönnum á hvernig á að afgreiða mál úr nefndum þannig að ég tel að þessi úrskurður nefndarformanns sé ógildur. Eftir stendur þá tillaga mín óafgreidd um afgreiðslu þessa þingmáls sem ég gerði að umtalsefni. Og ég vænti þess að varaformaður félmn. lúti venjulegum fundarsköpum og á reyndar ekki von á öðru en hann geri það þó misbrestur hafi orðið á hjá formanni.