Framhaldsskólar

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 16:52:40 (8039)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Menntmn. afgreiddi, eins og þinginu er ljóst, frv. sem stuðlar að því að menntmrh. eigi möguleika á að hefja vissa sókn í iðnfræðslumálum. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert því að eins og kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. v., Stefáni Guðmundssyni, þá er okkar löggjöf um margt gölluð Það verður að setjast yfir hana og ná þar einhverri samræmingu og rjúfa blindgöturnar sem þar eru. Jafnframt verður að rjúfa það að þeir sem hafa lokið tilskildu bóklegu námi í fjölbrautaskólunum sitji fastir og geti ekki lokið sínu námi vegna þess að þeir komast ekki áfram vegna kvaðanna varðandi verkmenntunina.
    En kjarni þessa máls er þessi að á sama tíma og menntmrh. gefur boltann fram völlinn, á knattspyrnumannamáli, og boðar sókn þá er hæstv. iðnrh. á fullri ferð upp að sínu eigin marki í iðnaðarmálum íslenskrar þjóðar. Það er óútskýrt og kemur þorskbresti ekkert við hvers vegna núv. ríkisstjórn hefur stefnt að hruni í iðnaðinum. Hvers vegna fækkar störfunum þar stöðugt? Það vantaði ekki að hæstv. iðnrh. talaði um það að byggja ætti álver á Suðurnesjum. Það vantaði ekki að talað yrði um fríiðnaðarsvæðið við Keflavík. En hverjar eru efndirnar á uppbyggingu? Hvar er sóknarþunginn á uppbyggingu í iðnaði í þessu landi? Menn hafa ekki viljað horfa á handverksmanninn. Menn hafa viljað horfa á hillingar í þessum efnum. Og afleiðingin er ákaflega einföld: Það fækkar stöðugt störfum í íslenskum iðnaði. Þó liggur fyrir, samkvæmt erlendum athugunum, að það eru fyrst og fremst litlu iðnfyrirtækin sem hafa verið að bæta við sig mönnum úti um alla Evrópu. Það eru smáfyrirtækin sem hafa verið að vaxa og bæta við sig mönnum. Stóru fyrirtækin hafa verið að hagræða og skera niður. Og að það skuli geta gerst í sömu ríkisstjórninni að iðnrh. er á harðahlaupum upp að eigin marki á sama tíma og menntmrh. boðar sókn í iðnaðarmálum.
    Þetta er furðuleg staða og ég tek undir það sem komið hefur fram hjá hv. 3. þm. Reykv. Birni Bjarnasyni. Það átti engum að koma á óvart að þegar kalda stríkinu lyki yrði samdráttur í hernaðarumsvifum á Suðurnesjum. Hverjum átti að koma það á óvart? Lá ekki í hlutarins eðli að deilan hafði staðið á milli Varsjárbandalagsins og Atlantshafsbandalagsins? En hverjar eru aðgerðirnar í iðnaðaruppbyggingunni í landinu? Hvað hefur hæstv. iðnrh. afrekað í þeim efnum og Alþfl. þar með? Ég held að ég hafi ekki hlustað á nokkra setningu oftar frá hinum aldna foringja Alþfl., Gylfa Þ. Gíslasyni, en þá að það væri iðnaðurinn sem ætti að taka við nýju störfunum á Íslandi. Ekki veit ég hvort sá sem fer með það ráðuneyti í dag hefur nokkurn tíma hlustað. En staðreyndin er sú, hér geta menn vissulega með rökum sagt: Það eru erfiðleikar í sjávarútvegi vegna þess að við getum ekki veitt jafnmikinn þorsk og við höfum gert á undanförnum árum. En það eru engin rök til fyrir því að á sama tíma og það er, þá eigi að hopa í iðnaðarstarfsemi í landinu. Það eru engin rök til fyrir þeirri stefnu. Og mig undrar það nánast. Vissuleg veit ég að iðnaðarmálefnin heyra undir hæstv. menntmrh. varðandi menntun. Bændaskólarnir hafa aftur á móti heyrt undir landbrh. og sjávarútvegsskólarnir voru tengdir sjávarútveginum á vissan hátt mun meira. En hefur iðnrh. einhverju látið það skipta hver væri stefnan í menntuninni, sem er þó undirstaðan? Ég hef ekki orðið var við það frekar en hina stefnuna um iðnðarmálin. En það blasir við sem staðreynd að aðgerðarleysi núv. hæstv. iðnrh. í málefnum iðnaðarins og afskipti hans af þeim málaflokki eru dýrustu mistök þessarar þjóðar, hvorki meira né minna. Það þarf ekki annað en að skoða þá stöðu að við höfum verið að virkja án þess að geta selt orkuna. Það eitt dugar. Þegar hitt bætist svo ofan á allt saman að hinum almennu störfum í iðnaði hefur stórkostlega fækkað, þá spyrjum við: Til hvers er að hafa iðnrh.? Er það kannski til að fela þau mistök að sumir leggja nú til að stofnað verði eitt atvinnuráðuneyti í landinu, það beri þá ekki eins

mikið á því?
    Ég tel að sú ákvörðun hæstv. menntmrh. að hefja sókn á menntunarsviðinu í iðnaðinum sé rétt. Ég hef stutt það mál út úr nefnd þó ég viðurkenni að ég sé að sumu leyti að færa meira vald í hendur ráðherra en almennt er æskilegt vegna þess að reglan á að vera sú að þetta sé meira bundið í lögum og það komi skýrara fram hvað beðið er um, ekki aðeins heimildir til að gera það sem mönnum dettur í hug. En ég hef engu að síður stutt það að þessar heimildir yrðu veittar.
    En mig undrar það að við skulum búa við það að svo sé komið að sá sem fer með þennan málaflokk virðist ekki láta sig það neinu skipta hvað þar er að gert. Það er opinber staðreynd samkvæmt því sem kennt er í kennslufræði að verknámsskólar Þýskalands á sínum tíma, verknámsskólar Kerschensteiners, voru talin undirstaðan fyrir því að Þjóðverjar stóðu fremstir allra í Evrópu á sviði iðnaðar. Þar var það skylda hjá þeim sem fóru í bóknám að taka líka iðngrein. Það var hugsað sem varúðarráðstöfun ef þeir kæmust ekki áfram í gegnum háskólana að þeir færu þá í þá iðngrein sem þeir höfðu lært. En hér á landi höfum við því miður ekki náð þeim árangri að skapa það eðlilega viðhorf til iðnfræðslu sem þarf að vera.
    Ég ætlaði ekki að tala hér langt mál. En mér finnst þetta svo furðuleg staða í einni ríkisstjórn að annars vegar skuli annar stjórnarflokkurinn vera með iðnaðarmálin, vaxtarbrodd íslensks atvinnulífs, sem sinn málaflokk en í opinberum umræðum í landinu tala þeir aldrei um neitt annað en sjávarútveg, aldrei um annað en sjávarútveg og aftur sjávarútveg. Hvers vegna tala þeir ekki um iðnaðaruppbygginguna sem þeim var trúað til að vinna að í þessu landi? Það er stórkostlegur galli á því, þó að ekki sé meira sagt, undir svona kringumstæðum að ríkisvaldið sé ekki fjölskipað stjórnvald. Þá væri hægt að kalla ríkisstjórnina alla til ábyrgðar undir þessum kringumstæðum. En það er staðreynd að ríkisvaldið er ekki fjölskipað stjórnvald. Þess vegna ber hæstv. iðnrh. einn ábyrgð á þessari stöðu. Hann ber einn ábyrgð á henni ásamt alþýðuflokksmönnunum sem hafa stutt hann í þetta embætti. Og það er söguleg staðreynd og menn verða að gera sér grein fyrir því að þetta eru dýrustu mistök sem átt hafa sér stað á Íslandi á seinni árum, að setja þennan mann í þetta embætti, í þennan ráðherrastól til þess að vinna að því eins og verið hefur að rústa íslenskan iðnað í staðinn fyrir að byggja hann upp.