Tilraunaverkefni framhaldsskóla á Austurlandi

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 17:04:44 (8040)

     Frsm. menntmn. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. menntmn. um till. til þál. um sérstakt tilraunaverkefni framhaldsskóla á Austurlandi, en tillagan var flutt af hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni. Tillagan er á þessa leið:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að undirbúa í samvinnu við framhaldsskóla og fulltrúa aðila vinnumarkaðarins á Austurlandi sérstakt tilraunaverkefni um stóraukna samvinnu skóla og atvinnulífs. Tilraunin nái til starfsnáms, verkmennta og fullorðinsfræðslu.``
    Nefndin varð sammála um að leggja til að þessari tillögu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar með jákvæðum hætti eða eins og hér segir í nál., með leyfi forseta:
    ,,Með hliðsjón af því að nefndin hefur mælt með samþykkt stjórnarfrumvarps um að heimila menntamálaráðherra að efna til tilraunastarfs í starfsnámi í framhaldsskólum sem og með hliðsjón af því að sérstök nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins er að vinna að málefnum framhaldsskóla á Austurlandi leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Valgerður Sverrisdóttir og Ólafur Þ. Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.``
    Undir nál. rita Sigríður A. Þórðardóttir, Björn Bjarnason, Rannveig Guðmundsdóttir, Svavar Gestsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Árni Johnsen og Tómas Ingi Olrich.